Fréttasafn



  • Vinnuvélar

23. ágú. 2010

Fátt eykur verktökum bjartsýni, engin útboð utan Búðarháls í sjónmáli

 

Útboð Búðarhálsvirkjunar eru einu teiknin  um einhverjar framkvæmdir á komandi vetri, nú þegar þrjú stór verkefni eru á lokasprettinum.

Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs hjá SI segir framkvæmdir á vegum einka- og opinberra aðila hafa dregist hratt saman síðastliðin tvö ár og í raun einungis verið þær sem voru þegar samningsbundnar og komnar í gang. „Nær engin ný verkefni sem eitthvað kveður að hafa verið boðin út á síðustu misserum.“ 

Nýfjárfestingar til samgöngumála hafa að mestu verið bundnar í þremur stórum verkefnum, Landeyjahöfn og jarðgöngum í Héðinsfirði og Bolungavík. Árni segir þessar framkvæmdir eiga það sammerkt að vera á lokastigi nú á haustdögum.

„Að auki hefur ætlun stjórnvalda að fjármagna nýframkvæmdir með einkafjármögnun ekki gengið sem skyldi. Þrátt fyrir vilja lífeyrissjóðanna til að taka þátt í fjármögnun opinberra verkefna, hefur einungis eitt verkefni, Landsspítalinn, farið af stað en verklegar framkvæmdir við spítalann hefjast þó ekki fyrr en eftir tvö ár. Önnur verkefni s.s. breikkun Suðurlandsvegar, Samgöngumiðstöð og Vaðlaheiðargöng hafa ekki komist af stað“ segir Árni.     

Á Útboðsþingi SI í vor, var fátt tíðinda sem jók verktökum bjartsýni og trú á framtíðina. Nær eina undantekningin var áform um byggingu 360 nýrra hjúkrunarrýma í 9 sveitarfélögum. Fyrsta útboðið var í Borgarbyggð og gert með þeim sérstaka hætti að einungis var leitað tilboða meðal fyrirtækja í sveitafélaginu.

Árni segir OR líklega stærsta einstaka verkkaupann á þessu ári með framkvæmdir á Hellisheiði. LV sé í þann mund að opna tilboð í Búðarháls en óvissa um áframhaldandi byggingu álvers í Helguvík sé bagaleg því framgangur þess verkefnis muni hafa mikil áhrif á greinina sérstaklega í ljósi þess að ekkert annað er í gangi.