Fréttasafn



  • Torvaldseyri

26. ágú. 2010

Hækkun á matvælum

Síðustu tvo mánuði hefur verð á kornvörum á heimsmarkaði hækkað mikið. Á sumum vörum nemur hækkunin allt að 50% og enn meira ef horft er til verðbreytinga frá vormánuðum. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir þessar hækkanir hafa víðtæk áhrif á matvælaiðnað í landinu og neytendur.

„Þessi þróun er afar óheppileg. Hún kemur á sama tíma og verðbólga er að hjaðna auk þess sem vonast er til að jákvæður viðsnúningur sé að eiga sér stað í efnahagslífinu. Bjarni Már segir óljóst hversu mikil og langvarandi  áhrif þetta muni hafa en ljóst að þau verða nokkur. „Greiningadeildir bankanna hafa metið mögulega hækkun á matvælaverði vegna þessara hækkana á heimsmarkaði. Þær benda til að matvæli unnin úr korni geti hækkað um allt að 6-10% á næstu tveimur mánuðum. Verðhækkanir á hveiti hafa mest verið til umræðu en sama á við um ýmsar aðrar hrávörur. Þannig hafa vörur eins og kaffi, bygg, hrísgrjón og soja líka verið að hækka verulega“, segir Bjarni og bendir á að fóðurverð geti líka hækkað sem aftur geti leitt til hækkana á fugla- og svínakjöti.

Nýjar verðbólgutölur Hagstofunnar sem birtar voru í morgun benda til að þessi þróun sé hafin.

Aðspurður um framhaldið segir Bjarni að aðstæður séu nokkuð óljósar. „Framan af ágústmánuði voru sérfræðingar á hrávörumörkuðum á þeirri skoðun að þessar hækkanir væru verðbóla sem myndi springa fyrr en síðar. Síðan kom í ljós að aðstæður í Rússlandi voru verri en talið var og verulegur uppskerubrestur á hveiti hefur átt sér stað í Þýskalandi vegna rigninga en þar er helsta uppspretta hágæða brauðhveitis í Evrópu. Af þessum sökum telja margir að verð fari ekki að lækka á ný fyrr en með nýrri uppskeru 2011. Við verðum samt að vona að verstu spár rætist ekki og að hækkanir gangi til baka. Við þurfum síst á því að halda núna að fá hærri matarreikninga. Til skamms tíma virðist nokkur hækkun hins vegar vera óhjákvæmileg“, segir Bjarni Már að lokum.