Fréttasafn



  • Verksmiðja Líflands á Grundartanga

27. ágú. 2010

Ný fóðurverksmiðja á Grundartanga

Lífland hefur reist nýja fóðurverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði. Um er að ræða verksmiðjuhús og síló sem spanna yfir 1.200 fermetra og er um 30 metra hátt. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er 30 þúsund tonn á einni vakt og geymslurými er yfir kringum 7500 þúsund tonn af hráefnum til fóðurgerðar og um 500 tonn af fullbúnu fóðri. Fóðurverksmiðju Líflands við Korngarða í Sundahöfn hefur verið lokað.

Uppsetning verksmiðjunnar gekk hratt fyrir sig en hún tók til starfa um miðjan júlí einungis réttu ári eftir að fyrsta skóflustungan var tekin og þar starfa nú fimm manns. Á fimmta tug starfsmanna unnu að byggingu verksmiðjunnar á framkvæmdatímanum. 

Bergþóra Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Líflands segir nýju verksmiðjuna mikið framfaraskref hvað varðar alla vinnuaðstöðu til fóðurgerðar. „Tækjakostur er allur nýr og fullkomnari en í gömlu verksmiðjunni. Birgðargeymar verksmiðjunnar eru útbúnir þannig þeir bæta geymsluskilyrði hráefna verulega frá því sem var.“ 

Nýja verksmiðjan markar tímamót hvað varðar sóttvarnir og rekjanleika afurða. Fullkominn aðskilnaður er milli hráefna og hitameðhöndlaðrar vöru sem er grundvöllur aukinna sóttvarna gegn örverum s.s. salmonellu. Bergþóra segir nýja tækni einnig stórauka alla nákvæmni við íblöndun vítamína, stein- og snefilefna, sem eykur aftur öryggi í framleiðslu og þar með gæði vörunnar. Orkunýting við framleiðsluna verður einnig betri en áður. „Nýja verksmiðjan gerir okkur kleift að framleiða kjarnfóður með svipuðum tæknibúnaði og best gerist hjá nágrannaþjóðum okkar og fellur þar með að ströngustu heilbrigðiskröfum sem ESB gerir til slíkrar framleiðslu.“