Fréttasafn



  • MNI-lógó

31. ágú. 2010

Matvæladagur MNÍ 2010 - tilnefningar til Fjöreggs

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) stendur fyrir árlegum  Matvæladegi miðvikudaginn 27. október, næstkomandi. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár verður Næring, heilsa og fæðubótarefni á villigötum? Brúum bilið með gagnrýndum vísindum og heilbrigðri skynsemi. Á ráðstefnunni verður fjallað á faglegan hátt um ýmsar rangfærslur varðandi næringu út frá gagnreyndri þekkingu. Rætt verður um gildi ýmissa fæðubótarefna, náttúrulyfja og náttúruefna og hvort neysla þeirra sé í raun og veru heilsusamleg, hverjir eigi helst á hættu að verða fyrir heilsuskaða vegna neyslu fæðubótarefna, og hvaða þjóðfélagshópar geti notið góðs af þeim. Einnig verður rætt um eftirlit með fæðubótarefnum, sterk áhrif fjölmiðla og markaðsafla, og um tengsl heilsu og heilsufullyrðinga. Nánari dagskrá verður send út síðar.

Í tengslum við ráðstefnuna verður Fjöregg MNÍ afhent fyrirtæki, stofnun eða einstaklingi fyrir lofsvert framtak á matvæla- eða næringarsviði. Fjöreggið er íslenskt glerlistaverk,  veitt með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins.

Fyrirtæki eru hvött til að benda á vörur eða gott framtak einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja sem hafa sýnt frumkvæði og skarað fram úr á matvæla- og næringarsviði og eru þess verðug að keppa til verðlaunanna.  Nauðsynlegt er að setja fram rökstuðning með ábendingunni. Ábendingar á að senda á netfangið mni@mni.is.