Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki - Skattfrádráttur vegna þróunarstarfs og skattafsláttur vegna fjárfestinga
Í lok árs 2009 voru samþykkt lög á Alþingi um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Lögin kveða á um að nýsköpunarfyrirtæki geti fengið skattfrádrátt vegna kostnaðar við rannsóknir og þróunarstarf og að fjárfestar fái skattafslátt vegna fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Til að skattyfirvöld veiti slíka ívilnun er gerð krafa um að Rannís veiti staðfestingu á að um nýsköpunarfyrirtæki sé að ræða í samræmi við ákvæði laganna. Gildir afgreiðslan fyrir yfirstandandi almanaksár.
Rannís hefur komið upp rafrænu umsóknarkerfi á slóðinni http://rannis.is/sjodir/skattivilnun/ í tengslum við lögin um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Umsóknarfrestur er til 1. september nk. Fyrirtæki þurfa að skrá sig í umsóknarkerfið fyrir þann tíma, en að þessu sinni er gefinn kostur á að ljúka umsóknum til 20. september.
Á heimasíðu Rannís er handbók með leiðbeiningum og upplýsingum um umsóknarferlið, en þar má einnig finna fyrrgreind lög auk reglugerða nr. 592 og 593 frá 2010.
Rannís mun leggja mat á hvort umsóknir uppfylli skilyrði laganna og tilkynna viðkomandi fyrirtæki niðurstöðuna auk tilkynningar til Ríkisskattstjóra.
Frekari upplýsingar um lögin og umsóknarferlið veitir Sigurður Björnsson hjá Rannís í síma 515 5800, eða sigurdur@rannis.is.