Fréttasafn  • ORF Líftækni og indverska fyrirtækið DM Corporation undirrita samstarfssamning

1. sep. 2010

Indverskt fyrirtæki í samstarf við ORF Líftækni um lyfjaþróun

 

ORF Líftækni og indverska fyrirtækið DM Corporation, stefna að samstarfi við þróun, framleiðslu  og markaðssetningu á próteinlyfjum fyrir alþjóðlegan markað. Björn Örvar framkvæmdastjóri ORF Líftækni og Dilip Mohite, forstjóri DM Corporation undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis í dag, að viðstaddri Preneet Kaur, ráðherra utanríkismála Indlands og Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra Íslands.

Viljayfirlýsingin felur í sér að stofnað verður nýtt lyfjafyrirtæki til að þróa og markaðssetja sérvirk lyfjaprótein. ORF Líftækni leggur nýju fyrirtæki til sérþekkingu sína og einkaleyfisbundið framleiðslukerfi fyrirtækisins í erfðabreyttu byggi. Samstarfið gerir ORF Líftækni kleift að þróa og aðlaga einstakt og öruggt framleiðslukerfið að framleiðslu próteinlyfja.

Á Indlandi er stór, þróaður og ört vaxandi lyfjamarkaður. Þar er mikil sérþekking á lyfjaþróun enda reka fjölmörg alþjóðleg lyfjafyrirtæki þar starfsemi og umtalsverður hluti lyfjaþróunar í heiminum fer þar fram. DM Corporation er indverskt fyrirtæki sem rekur fjölbreytta starfsemi og hyggst með samstarfi við ORF Líftækni hasla sér völl á ört vaxandi alþjóðlegum markaði með próteinlyf.