Eyrir Invest og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesta í ReMake Electric
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Eyrir Invest hafa undirritað samning um kaup á hlutafé í hátæknifyrirtækinu Remake Electric ehf. og var hluthafasamkomulag þess efnis undirritað 31. ágúst 2010. Fjárfestingin verður í nokkrum áföngum og eru greiðslur háðar framgangi verkefna. Að þeim loknum mun Nýsköpunarsjóður eiga 18% hlut í félaginu og Eyrir Invest 20% hlut. Það er markmið þessara hluthafa að byggja upp ReMake Electric sem öflugt íslensk hátæknifyrirtæki, leiðandi á sínu sérsviði á alþjóðavísu.
ReMake Electric hefur þróað rafskynjara sem kemur í stað hefðbundinna rafmagnsöryggja og kviknaði hugmyndin hjá Hilmi Inga Jónssyni, frumkvöðli, þegar hann starfaði sem rafirki, vegna skorts á upplýsingum til bilanaleitar. Auk þess að nýtast vel sem greiningartæki þá eykur rafskynjarinn öryggi með því gefa hljóðviðvaranir vegna yfirálags. Einnig gefur rafskynjarinn viðskiptavinum tækifæri á að fylgjast betur með eigin orkunotkun. Rafskynjarinn er einkaleyfisvarinn í Evrópu, Bandaríkjunum, Japan og Kína.