SI og Iðnú gefa öllum skólum Iðna krakka eftir Sigrúnu Eldjárn
Samtök iðnaðarins og Iðnú gefa öllum skólum landsins eitt bekkjarsett af nýútkominni bók Sigrúnar Eldjárn, Iðnir krakkar.
Fyrsti skólinn, sem veitir bókunum viðtöku er Ísaksskóli en Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI og Erling Erlingsson, framkvæmdastjóri Iðnú afhentu nú í morgun 7-8 ára gömlum börnum í Ísaksskóla bækurnar. Orri sagði börnunum frá bókinni og að allir skólar á landinu myndu fá eitt bekkjarsett af henni. Hann afhenti síðan menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, eintak og gaf henni orðið. Katrín sagðist hafa lesið bókina og kvaðst þess fullviss að krakkarnir myndu hafa jafn gaman af henni og hún sjálf. Krakkarnir voru ófeimnir að spyrja hana út í efnið og segja frá ýmsu sem þau kunna og geta.
Síðan las höfundurinn, Sigrún Eldjárn, úr bókinni. Börnin hlustuðu af áhuga og ekki var annað að sjá en bókin félli í góðan jarðveg.
Iðnir krakkar fjallar um systkinin Siggu Láru og Kára og kynni þeirra af margvíslegum iðnaðarmönnum, t.d. málara, rafvirkja, pípara, gullsmið, bakara og hársnyrti.
Af baksíðu bókar:
Öll þurfum við þak yfir höfuðið, það er staðreynd. Og ekki bara þak og allt sem því fylgir heldur einnig ýmislegt annað svo að okkur líði vel. En hver skyldi t.d. vera galdurinn að baki fullbúnu íbúðarhúsi með rennandi vatni, hita og lýsingu? Eða þá fallegri bók, nýbökuðu brauði og góðri klippingu? Og hvert er eiginlega þetta „galdrafólk“ sem vinnur verkin? Iðnaðarmennirnir. Í þessari bók fáum við einmitt að kynnast mörgum þeirra í gegnum þau ágætu systkin Siggu Láru og Kára, t.d. Stínu stuð og Rabba hársnyrti. Góða skemmtun!