Fréttasafn  • Lög

24. sep. 2010

Akureyrarbær kærður til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

 

SI hafa fyrir hönd félagsmanns, verktakafyrirtækis, kært Akureyrarbæ til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna óhæfilegs dráttar á að veita upplýsingar um viðskipti sveitarfélagsins við annað verktakakafyrirtæki vegna kaupa þess á efni úr svokölluðum „dammi“ ofan við Glerárvirkjun af sveitarfélaginu.

Tildrög málsins eru þau að í ágúst sl. heimilaði Akureyrarbær verktakafyrirtæki úr bænum efnistöku úr „damminum“ til eigin nota, en verktakafyrirtækið er samkeppnisaðili félagsmanns SI. Í kjölfarið óskaði félagsmaður SI eftir að kaupa efni úr viðkomandi „dammi“ af sveitarfélaginu og óskaði ennfremur eftir upplýsingum um það verð er samkeppnisaðil hans greiddi fyrir efnistökuna, þ.e. magn og einingarverð. Akureyrarbær hefur ekki orðið við þeirri beiðni hans að veita þessar upplýsingar þrátt fyrir ítrekun þess efnis. 

SI hafa því kært Akureyrarbæ til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga og gera þær kröfur að úrskurðarnefndin kveði á um skyldu Akureyrarbæjar að veita kæranda afrit af umræddum gögnum tengdum viðskiptum sveitarfélagsins við umrætt fyrirtæki og/eða beiti þeim úrræðum sem nefndin hefur til að þoka málinu áfram með það að markmiði að kæranda verði veittar umræddar upplýsingar. 

SI leggja ennfremur áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélög gæti jafnræðis í viðskiptum sínum við verktaka.