Fréttasafn  • Prósentumerki

28. sep. 2010

Óvænt verðbólguþróun kallar á frekari vaxtalækkanir

 

Vísitala neysluverðs er óbreytt milli mánaða samkvæmt nýjum verðbólgutölum frá Hagstofu Íslands og birtar voru í morgun. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir þetta hafa komið nokkuð á óvart en vissulega sé ánægjulegt að verðbólga sé að dragast hratt saman. „Í venjulegu árferði er yfirleitt hressileg hækkun á vísitölu neysluverðs í september enda er sumarútsölum að ljúka og á verð fatnaði hækkar verulega. Vissulega hækki þessir liður nú en aðrir þættir ýta undir lækkun“.

Bjarni segir að verðbólguhorfur fyrir seinnihluta ársins markist annars vegar af frekar veikri innlendri eftirspurn sem dragi úr verðbólgu. „Hins vegar eru yfirvofandi hækkanir á rafmagni og kornvörum sem hafa hækkað mikið á erlendum mörkuðum en einhver viðspyrna er þó í þeirri gengisstyrkingu sem hefur komið fram síðustu mánuði. Ég býst þó ekki við að gengið styrkist meira enda er Seðlabankinn farinn að kaupa gjaldeyri þegar færi gefst sem gefur vísbendingu um að hann vilji ekki sjá gengið styrkjast mikið meira. Verðbólguþróunin síðustu mánuði ætti að styðja við frekari stýrivaxtalækkanir þar sem minnkandi verðbólga hækkar raunvaxtastig að óbreyttum stýrivöxtum. Núverandi efnahagsástand kallar á að raunstýrivextir séu við núllið“, segir Bjarni að lokum.