Sókn í byggingariðngreinar á hinum Norðurlöndunum
Á fundi norrænna menntafulltrúa samtaka í byggingariðnaði, sem haldinn var nýlega í Gautaborg, var til umræðu nýliðun í byggingariðngreinum.
Byggingariðnaður dróst saman á öllum Norðurlöndum við efnahagslægðina 2008 en er þó að ná sér á strik víða nema á Íslandi. Noregur, Svíþjóð og Finnland glíma ekki við sams konar nýliðunarvanda í byggingariðnaði og Ísland. Markvisst hefur verið unnið að því að lyfta þar iðn- og verknámi. Tekist hefur að ná til áhugasamra og góðra nemenda og kröfur í náminu hafa verið auknar. Norðmönnum tókst að snúa dæminu við á einum áratug. Þar er enginn nýliðunarvandi í byggingariðngreinum, að talist getur. Skólar neyðast til þess að beina ungu fólki annað, m.a. í almennt bóknám. Byggingariðnaðurinn fær því samkeppnisfært fólk.
Almennt virðist sveifla í nýliðun gjarnan vera samfasa sveiflu í efnahagslífinu. Þegar vel árar í atvinnugrein hefja margir nám í henni og þegar illa árar hefja fáir nám. Hér á landi eru t.d. fyrsta árs nemar í byggingariðngreinum aldrei færri en þetta haust.
Byggingariðnaður á Íslandi mun rétta úr kútnum og ná góðum styrk innan nokkurra ára. Þá er viðbúið að þeir fáu sem hefja nám um þessar mundir og brautskrást eftir 4-5 ár hafi meira en nóg að gera. Fyrirtækin mun þá hins vegar skorta iðnaðarmenn. Því er ástæða til að hvetja ungt fólk til að leiða hugann að námi í byggingariðngreinum, einmitt nú þegar hann hefur náð botni.