Fréttasafn



  • Í slipp

21. okt. 2010

Óvissa um fiskveiðistjórnun áfall fyrir málmiðnaðinn

 

Eftir að kreppan reið yfir og gengi krónunnar féll batnaði samkeppnistaða útflutnings- og samkeppnisgreina mikið. Í málm- og skipasmíðaiðnaði fór að bera á verulegri aukningu í verkefnum strax á seinni hluta ársins 2008. Einkum bar mikið á margvíslegri endurnýjun og viðhaldi við fiskiskipaflotann sem var mikil búbót fyrir málmiðnaðinn. Fyrri hluti þessa árs var þokkalegur en þegar kom fram á seinni hluta ársins hefur þjónusta við skipaflotann hins vegar dregist mikið saman. Raunar er hægt að tala um áfall fyrir málm- og skipasmíðaiðnað í landinu. Bjarni Thoroddsen, framkvæmdastjóri Stálsmiðjunnar og stjórnarmaður í Málmi, segir ljóst að sú mikla óvissa sem ríkir um framtíð fiskveiðistjórnunnar hafi mjög neikvæð áhrif á málmiðnaðinn.

„Nánast engin skip eru tekin upp í slipp og útgerðamenn standa algerlega á bremsunni. Í ljósi þeirrar óvissu sem þeir standa frammi fyrir eru þeirra ákvarðanir skiljanlegar. Ábyrgðin á þessari liggur algerlega hjá þeim sem setja allt kerfið í uppnám. Menn mega ekki gleyma því að hin hliðin á þessu máli er sá mikli samdráttur og atvinnuskerðing sem við í málminum stöndum frammi fyrir. Hvaða skoðun menn svo sem hafa á framtíðarskipulagi fiskveiða er ekki rétti tíminn núna að setja allt í uppnám. Við erum að reyna endurreisa efnahagslífið og þurfum síst á því að halda núna að stjórnvöld skuli setja sjávarútveginn og atvinnulíf í kringum hann í uppnám. Sú óvissa sem nú ríkir í kringum sjávarútveginn og skipulag fiskveiðistjórnunar er í raun áfall fyrir okkur“, segir Bjarni að lokum.