Fréttasafn  • Frumtak fjárfestir í Mentor

8. nóv. 2010

Frumtak fjárfestir í Mentor

Frumtak hefur fest kaup á hlut í Mentor ehf.  Mentor var stofnað árið 1990 og hefur frá upphafi unnið með grunnskólum og er því komið með 20 ára reynslu af þróun og rekstri upplýsingakerfa. Mentor sameinaðist sænska fyrirtækinu P.O.D.B árið 2007 en erlendis er fyrirtækið rekið undir nafninu InfoMentor (sjá www.infomentor.se). Fyrstu árin voru það eingöngu grunnskólar sem nýttu kerfið en árið 2001 kom fyrsta útgáfan fyrir leikskóla og sveitarfélög. Í dag er Mentor heildstætt upplýsinga- og námskerfi fyrir alla sem starfa með börnum í skólum og tómstundastarfi. Mentor er notað í fjórum löndum og auk höfuðstöðvanna á Íslandi er fyrirtækið með skrifstofu í Svíþjóð þar sem 18 starfsmenn vinna við ráðgjöf, sölu og þjónustu við sænska viðskiptavini. Á Íslandi starfa 23 starfsmenn þar af eru fjórtán tölvunarfræðingar sem vinna við þróun kerfisins. Mentor áætlar að setja upp starfsstöð í Sviss í byrjun árs 2011 fyrir þýskumælandi markað. 

„Við erum afar spennt fyrir fjárfestingunni í Mentor“ sagði dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks. „Mentor er glæsilegt fyrirtæki sem hefur skapað sér tækifæri í hugbúnaðargerð í skólakerfinu og þannig lagt sitt af mörkum til þess að bæta gæði skólastarfs, sem er svo mikilvægt í nútíma þjóðfélagi. Við væntum mikils af fyrirtækinu og erum sérstaklega áhugasöm að sjá fyrirtækið nýta sérþekkingu sína í sölu á þessu sviði. Þarna eru mikil tækifæri sem hægt er að nýta með því fjármagni sem fyrirtækið fær með þessari hlutafjáraukningu“.

„Mentor er fyrirtæki sem hefur það að markmiði að auka árangur í skólastarfi“ sagði Vilborg Einarsdóttir, framkvæmda­stjóri Mentor. „Mentor er eitt af stærstu upplýsingakerfum landsins en síðustu ár hefur félagið náð frábærum árangri í Svíþjóð þar sem um 700 skólar eru að nýta sér þjónustu fyrirtækisins. Framundan er markaðssetning kerfisins í Sviss en þegar er búið að skrifa undir þróunarsamning við fyrsta sveitarfélagið. Samstarf Mentors og Frumtaks gefur fyrirtækinu kleift að sækja fram af auknum krafti í sölu og markaðssetningu á erlendum vettvangi auk þess að efla enn frekar Mentor kerfið sem nýtist jafnt erlendum sem og íslenskum skólum og íþróttafélögum.”

Frumtak er samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyris­sjóðum landsins og þriggja banka. Frumtak fjárfestir í nýsköpunar- og sprota­fyrirtækjum sem þykja vænleg til vaxtar og útrásar. Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskiptaáætlanir.