Fréttasafn  • Ny-merking

12. nóv. 2010

Tilkynna þarf flokkun og merkingu hættulegra efna

Nú styttist í að ný reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna taki gildi. Gerð verður grundvallarbreyting á merkingunum sjálfum en einnig verður breyting á ábyrgð með flokkun efna á markaði. Ábyrgðin færist frá yfirvöldum til atvinnulífsins. Lykilatriði í því sambandi er tilkynning í flokkunar- og merkingaskrá sem er á ábyrgð þeirra sem setja efni á markað á Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem það er eitt og sér eða hluti af blöndu. Íslensk fyrirtæki eiga að flokka efni samkvæmt nýjum reglum og tilkynna þegar það á við til Efnastofnunar Evrópu í Helsinki. Frestur til að tilkynna rennur út 3. janúar 2011 fyrir vörur sem eru á markaði 1. desember 2010.

Tilkynningaskyldan nær til efna sem falla undir hættuflokkun samkvæmt ákvæðum nýju reglugerðarinnar. Þeir sem annað hvort framleiða eða flytja inn efni og efnablöndur frá löndum utan EES þurfa að skoða hvort tilkynna þurfi þeirra efni. Þeir sem flytja inn vörur frá löndum utan EES ættu að athuga sérstaklega hver staða þeirra er. Innflytjendur eiga að geta nálgast upplýsingar um einstök innihaldsefni í vörum frá birgja eða framleiðanda og því er í fæstum tilfellum þörf á að leggja út í mikla vinnu við tilkynningu.

Haldinn var kynningarfundur um málið í nóvember og hægt er að nálgast upplýsingar sem þar komu fram á vef Umhverfisstofnunar.