Fréttasafn  • CTI-fundur 9. nóv 2010

15. nóv. 2010

Viðskiptatækifæri fyrir umhverfistæknifyrirtæki

Þann 9. nóvember var haldinn vel sóttur morgunverðarfundur á vegum Íslandsstofu og Clean Tech Iceland (CTI) - samtök íslenskra umhverfistæknifyrirtækja.  

Farið var yfir hlutverk samtakanna, þjónusta nýstofnaðrar Íslandsstofu kynnt sem og nýtt útflutningsmarkaðsverkefni fyrir umhverfistækni sem hefst í lok mánaðarins.

Um 15 íslensk fyrirtæki eru í samtökunum sem stofnuð voru þann 1. júní síðastliðinn.

Aðalræðumaður fundarins var fulltrúi Green Business Norway (GBN), samtaka sem samanstanda af yfir fjörtíu umhverfistæknifyrirtækjum. Í máli hans kom m.a. fram að samstarf á milli fyrirtækja væri  mikilvægur þáttur þegar hugað væri að markaðssetningu erlendis.

Í kjölfarið hittist stjórn CTI og GBN á vinnufundi þar sem ákveðið var að kanna möguleika á nánara samstarfi með aðkomu allra Norðurlandanna. Mikil tækifæri liggja í umhverfistækni fyrir íslensk fyrirtæki á erlendum vettvangi og er það von stjórnar CTI að sem flest umhverfistæknifyrirtæki sjái hag sinn í því að ganga í samtökin og leggja sín lóð á vogarskálarnar.

Hægt er að nálgast kynningar af fundinum á vefsíðu Íslandsstofu.

Útflutningsmarkaðsverkefni fyrir umhverfistækni

Clean Tech Iceland og Íslandsstofa standa fyrir handleiðsluverkefni fyrirtækja sem stefna að útflutningi á umhverfistækni. Tilgangur verkefnisins er að undirbúa og aðstoða umhverfistæknifyrirtæki við að markaðssetja tilbúna vöru erlendis. Þetta er klæðskerasaumað verkefni sem mun taka mið af þörfum þeirra fyrirtækja sem taka þátt.

Í upphafi verkefnisins verður gert stöðumat og skoðað hvar fyrirtækin eru stödd með tilliti til útflutnings. Síðan verður unnið í fjóra daga, einn dag í mánuði. Hver dagur er helgaður ákveðnu efni, byrjað verður á að skoða hvernig er best að undirbúa fjármögnun útflutningsverkefna, m.a. með kynningu á hvaða lausnir stuðningsumhverfið býður upp á. Á öðrum degi verður fjallað um markaðssetningu erlendis og hvar og hvernig megi ná í viðskiptavininn. Því næst hvernig búa á til sannfærandi sölukynningar fyrir erlenda viðskipavini og að lokum er farið yfir mismunandi dreifileiðir, hvernig þær henta mismunandi vörum, og hvernig rétt sé að haga samskiptum. Leiðbeinendur verða íslenskir og erlendir sérfræðingar og sagðar verða reynslusögur fyrirtækja. Þátttakendum býðst aðstoð viðskiptafulltrúa fyrir þann markað sem þau stefna á.

Verð fyrir þátttöku er 50.000 kr. en ef fleiri en einn koma frá sama fyrirtæki er greitt kr. 25.000 kr. fyrir viðbótarsæti. Innifalið í verði er allt sem tengist vinnufundunum fjórum og 10 tíma ráðgjafavinna á þeim mörkuðum sem starfandi eru viðskiptafulltrúar. Verkefnið hefst 30. nóvember og frestur til að skrá sig rennur út 22. nóvember. Skráning fer fram á netfangið andri@islandsstofa.is