Fréttasafn  • Svansprent hlýtur Svansvottun

1. des. 2010

Svansprent hlaut norræna umhverfismerkið Svaninn

Nýverið hlaut prentsmiðjan Svansprent ehf. í Kópavogi hið virta norræna umhverfismerki Svaninn sem er þekktasta umhverfisviðurkenning Norðurlandanna. Umhverfismerkið Svanurinn var tekið í notkun 1989 og frá þeim tíma hafa um 6000 vörur og þjónusta hlotið vottun Svansins. Eigendur og starfsfólk Svansprent hafa um nokkurt skeið unnið skipulega að því að gera alla framleiðslu prentsmiðjunnar vistvæna sem leiddi til þess að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Svansprenti Svaninn sem staðfestingu vottunarinnar við hátíðlega athöfn í prentsmiðjunni nýverið.  

Eigandi og stofnendur Svansprents eru hjónin Jón Svan Sigurðsson og Þuríður Ólafsdóttir en prentsmiðjan hóf starfsemi árið 1967. Nú vinna þrjár kynslóðir fjölskyldunnar hjá Svansprenti en alls starfa þar um 30 manns og margir með áratuga starfsreynslu.

Framvegis getur prentsmiðjan notað Svansmerkið á prentgripi og aðrar prentvörur til að undirstrika að prentsmiðjan fylgi afar ströngum vistvænum gæðakröfum. „Svansprent er stolt af því að leggja lóð sín á vogarskálarnar í umhverfismálum,“ segir Sverrir Brynjólfsson, prentsmiðjustjóri. Svanurinn vottar að umhverfisáhrif framleiðslunnar séu í lágmarki og krefst þess að ströngum gæðakröfum sé fylgt á öllum framleiðslustigum. Meðal krafna Svansins eru að minnst 95% allra efna sem notuð eru í framleiðslunni séu samþykkt af Svaninum, afskurður sé lágmarkaður og að pappír sé úr nytjaskógum og framleiddur samkvæmt ströngum kröfum Svansins. 

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Jóni Svan Sigurðssyni og fjölskyldu hans Svaninn sem staðfestingu umhverfisvottunarinnar við hátíðlega athöfn nýverið. Á myndinni eru fjórir ættliðir en þrír þeirra starfa við fjölskyldufyrirtækið.