Fagþekking, nýsköpun og þróun í íslenskum matvælaiðnaði
Íslenskir matvælaframleiðendur tóku höndum saman í tilefni af Ári nýsköpunar síðastliðna helgi og kynntu fyrir landsmönnum íslenska matvælaframleiðslu. Fjöldi fólks lagði leið sína í opin hús og Smáralind og kynntu sér framleiðslu og starfsemi fyrirtækjanna.
Ölgerðin var með opið hús þar sem gestum var boðið að skoða verksmiðjuna, bragða á nýjum drykkjum og blanda sína eigin sem mæltist sérstaklega vel fyrir hjá yngstu kynslóðinni. Jói Fel bauð upp á lifandi tónlist og bauð gestum að skoða bakaríið. Gæðabakstur/Ömmubakstur bauð upp á veitingar, blöðrur og kynnisferð um fyrirtækið þar sem m.a. var hægt að fylgjast með kleinuframleiðslu. Í Vetrargarðinum í Smáralind var kynning á jólamat og drykk, kjötiðnaðarmeistarar úrbeinuðu hangikjöt sem þeir afhentu síðan mæðrastyrksnefnd til úthlutunar. Í kaffibrennslum Kaffitárs og Te og kaffi var boðið upp á skoðunarferðir, kaffismakk og fræðslu og í mörgum bakaríum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni var tekið á móti gestum með kaffi og jólabakkelsi.