Óvissu vegna vegaframkvæmda eytt
Mun skapa hundruð starfa strax á næsta ári
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að setja 40 milljarða kr. í sérstakar vegaframkvæmdir á næstu árum. Á næsta ári verður varið 6 miljörðum króna til framkvæmda á Suðurlandsvegi að Selfossi, Vesturlandsvegi að Hvalfjarðargöngum, Reykjanesbraut suður fyrir Straum og Vaðlaheiðargöng.
Þar með ákvað ríkisstjórnin, að velja þá leið, að fjármagna þessar samgönguframkvæmdir með útgáfu sérstakra skuldabréfa.
„Samtök iðnaðarins fagna ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja þessar framkvæmdir sem eru í senn mannaflsfrekar, sem ekki veitir af, en einnig og ekki síður að þær eru arðbærar og styrkja samkeppnishæfni íslensks samfélags í framtíðinni“ segir Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins.
Á vef Morgunblaðsins segir: „Meðal þeirra verkefna sem fara í útboð á næstunni er framkvæmd á 15 km löngum kafla frá Hellisheiðarvirkjun til Hveragerðis og vonast Kristján (Möller) til að verkefnið geti farið í útboð í janúar eða febrúar nk. Einnig má nefna framkvæmdir á tæplega tveggja km kafla á Suðurlandsvegi frá Smálöndunum að Bæjarhálsi. Kristján segir að það séu aðeins nokkrar vikur í útboð í þá framkvæmd.Þá má nefna framkvæmdir á tæplega fjögurra km kafla á Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi. Útboð geti mögulega hafist í janúar eða febrúar.
Loks er um að ræða gerð Vaðlaheiðarganga, sem eru átta km löng. Þar séu öll gögn tilbúin til forvals á Evrópska efnahagssvæðinu. Ferlið geti tekið allt að fimm mánuði. „Ég myndi segja að það væri ágætt takmark að byrja á Vaðlaheiðargöngum 17. júní nk.“ segir Kristján Möller í viðtali við Mbl. Í ráðherratíð sinn lagði Kristján grunninn að þessu sérstaka átaki í stórframkvæmdum í vegagerð og lauk hann því verkefni með þeirri ákvörðun sem tekin var í dag.
Fyrir verktakafyrirtæki eru þetta mikil gleðitíðindi, því verkefnaskortur hefur neytt þau mörg til að draga stórkostlega úr starfssemi sinni og fátt aukið verktökum bjartsýni að undanförnu.