Fréttasafn



  • Aðalfundur SÍL 2010

13. des. 2010

Aðalfundur SÍL haldinn hjá Orf Líftækni

Ný stjórn Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja var kosin á aðalfundi félagsins á dögunum. Formaður samtakanna, Jóhannes Gunnarsson hjá Genís, situr áfram frá fyrra ári ásamt Ásu Brynjólfsdóttur hjá Bláa Lóninu heilsuvörum. Inn í stjórnina kemur Guðný Einarsdóttir hjá Roche NimbleGen í stað Jakobs K. Kristjánssonar hjá Prókatín sem setið hefur í stjórn félagsins frá stofnun þess árið 2004. Jakob starfaði sem formaður á fyrstu árum félagsins og voru honum þökkuð vel unnin störf.

Í skýrslu stjórnar var farið yfir starfið á líðandi ári. Samtökin stóðu fyrir ýmsum fundum og þar bar hæst málstofu um einkaleyfi þar sem velt var upp gagnsemi einkaleyfa og hvað beri að varast. Málstofan var vel sótt og umræður voru gagnlegar. Einnig vakti athygli fundur norrænna fjárfesta á sviði líftækni en fundurinn var opinn fyrir félagsmenn SÍL og nokkur fyrirtæki kynntu þar starfsemi sína. Samtökin sinna ýmsum hagsmunamálum líftæknifyrirtækja og komu m.a. að umsögnum um lagafrumvörp og reglugerðardrög á sviði erfðabreyttra lífvera og erfðabreyttra matvæla og fóðurs.

Aðalfundur SÍL var að þessu sinni haldinn hjá Orf Líftækni. Fyrirtækið hefur vaxið á undanförnum árum, nú starfa þar um 40 manns og vörum Orf er vel tekið á markaði. Fundargestir kynntust einnig dótturfyrirtækinu Sif Cosmetics. Fyrsta vara Sif Cosmetics á markaði, EGF BIOeffect húðdroparnir, hafa hlotið góðar viðtökur.