Fréttasafn  • Bygg

16. des. 2010

Ákvörðun Umhverfisstofnunar staðfest af umhverfisráðherra

Umhverfisráðherra hefur staðfest ákvörðun Umhverfisstofnunar um leyfi fyrir ORF Líftækni til  að rækta erfðabreytt bygg í Gunnarsholti, en nokkrir aðilar höfðu kært leyfisveitinguna. ORF Líftækni fagnar þessum úrskurði ráðherra og að nú hafi óvissu um áframhaldandi akuryrkju verið eytt. Úrskurður ráðherra er byggður á faglegum forsendum og er fyrirtækinu mikilvægur fyrir áframhaldandi uppbyggingu hér á landi.

ORF Líftækni hefur ræktað erfðabreytt bygg á akri frá árinu 2003 með hléum. Leyfi var veitt til slíkrar ræktunar 2003 og 2005 auk leyfisins sem Umhverfisstofnun veitti árið 2009, sem gildir til ársins 2013. Ræktunin hefur í öllum tilfellum gengið vel, ef frá er skilið árið 2009, þegar skemmdarverk voru unnin á reitnum. Þá brá einnig svo við að vel rökstudd ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita áframhaldandi leyfi til akuryrkju, var kærð af nokkrum aðilum.

ORF Líftækni telur að kæran hafi fyrst og fremst verið tilraun til að slá ryki í augu almennings og stjórnvalda, enda er það samhljóma mat fyrirtækisins og vísindasamfélagsins að ekki stafi hætta af ræktun á erfðabreyttu byggi á Íslandi.
Leyfisveiting Umhverfisstofnunar byggði á ítarlegum umsögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands og vísindamanna innan Ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur. Umhverfisráðherra hefur með úrskurði sínum staðfest þessa ákvörðun Umhverfisstofnunar.

Úrskurður umhverfisráðherra