Fréttasafn  • tolvur_taekniskoli

17. des. 2010

Prenttæknistofnun gefur Tækniskólanum Apple tölvur

Þann 16. desember afhenti Prenttæknistofnun, Upplýsingatækniskólanum nítján iMac tölvur til nota við kennslu í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum. Tölvurnar koma sér vel því nauðsynlegt var að endurnýja tölvukost skólans.

Um leið var undirritað samkomulag milli prenttæknisviðs IÐUNNAR og Upplýsingatækniskólans um afnot prenttæknisviðs af tölvunum til símenntanámskeiða. Slíkur samningur hefur verið óformlega í gildi um árabil en við þetta tækifæri var fyrirkomulagið sett á blað og undirritað af Baldri Gíslasyni frá Tækniskólanum og Birni M. Sigurjónssyni sviðsstjóra prenttæknisviðs IÐUNNAR.

Tölvurnar eru iMac með 21" skjá, 3.06 Ghz örgjörva og 500 GB hörðum diski. Þær eru nægilega öflugar til að keyra öll nýjustu forritin sem kemur sér vel við kennsluna. Ekki síst í gerð og hönnun rafbóka sem færast sífellt í vöxt og munu taka markaðinn með trompi á næstu árum.  

Á myndinni eru Jón B. Stefánsson skólameistari Tækniskólans, Björn M. Sigurjónsson sviðsstjóri prenttæknisviðs IÐUNNAR, Ómar Örn Magnússon deildarstjóri upplýsingatæknideildar, Bjargey Gígja Gísladóttir skólastjóri Upplýsingatækniskólans, Tryggvi Jóhannsson kerfisstjóri, Baldur Gíslason skólameistari, Haraldur Dean Nelson forstöðumaður upplýsingatækni- og prentsviðs SI og Georg Páll Skúlason formaður Fbm.