Fréttasafn  • Tug-of-Mind

26. jan. 2011

Íslenskt hugvit fyrst á markað um hugarorku iPhone notenda

Íslenska sprotafyrirtækið MindGames ehf varð í desember fyrst í heiminum til að selja iPhone forrit (e. app) sem nýtir hugarorku notandans og nefnist það Tug of Mind. Leikurinn var fyrst kynntur á alþjóðlegri leikjaráðstefnu í San Francisco á síðasta ári við mjög góðar undirtektir og er frekari þróun fyrirhuguð. Í sama mánuði hlaut fyrirtækið styrki frá Tækniþróunarsjóði og Iðnaðarráðuneytinu ásamt tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Sú tilnefning tengist fyrsta fjölspilunar-tölvuleiknum á Facebook sem stjórnað er með hugaraflinu einu saman og nefnist „Gods and Mortals“. Ýmis verkefni eru í þróun hjá MindGames, sem hyggur á frekari vöxt og leitar að spennandi samstarfsaðilum.

MindGames er alþjóðlegur frumkvöðull, sem þroskaðist gegnum Gullegg Innovit, sprotaumhverfi Hugmyndahússins og stuðningskerfi Viðskiptasmiðjunnar/Klak. Fyrirtækið starfar undir mottóinu „Change your mind, transform reality“ og framleiðir m.a. svokallað „Mind Training“ leiki, eða heilastýrða hugþjálfunartölvuleiki.

Með aðstoð Samtaka Tölvuleikjaframleiðenda og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, meðal annarra, hefur fyrirtækið skapað sér sess innan hóps nýrra sprotafyrirtækja sem fundu hvata til stórsóknar í efnahagsþrengingum síðustu ára og eru tilbúin í slaginn á alþjóðlegum mörkuðum.

Hefur fyrirtækið þegar fengið alþjóðlega umfjöllun m.a. í L.A. Times í Bandaríkjunum og tölvuleikjatímaritinu EDGE í Bretlandi.  Einnig vinnur MindGames með erlendum samstarfsaðilum, sem hefur leitt til þess að Tug of Mind hefur verið notaður á kynningum víða um heim og rataði logo hans m.a. á umbúðir sérstaks heilabylgjutóls sem nauðsynlegt er til spilunar hans.

Heilastýrðir leikir

Heilastýrðir leikir eru algjör nýjung á leikjamarkaðnum og urðu ekki raunhæfir fyrr en fyrsta heilabylgjutólið birtist á markaði árið 2009. Þó slík tól séu glæný á neytendamarkaði, byggir tæknin á heilarafritum (e. EEG) þeim sem notaðir eru í læknisfræði og hafa mælt rafbylgjur heilans síðan 1924. Þessi þróun á leik og hönnun hefur vakið mikla athygli erlendis og gefur ákveðnar vísbendingar um það sem koma skal í heimi tölvuleikjanna, sem og víðar.

Hugþjálfun með þessum hætti er því allt annars eðlis en hinir hefðbundnu þrauta- og minnisleikir sem fólk hefur kynnst hingað til. Þjálfun sú sem MindGames hefur einna mest horft til fram að þessu snertir sérstaklega slökunar- og einbeitingareiginleika notandans, sem nýtist ekki síst við vinnu og gegn streitu.

Tug of Mind

Tug of Mind er hugsað til skemmtunar, en þjálfar um leið notandann í að kljást við streitu og smám saman stýra betur eigin einbeitingu og slökun, þökk sé þjálfunareiginleikum heilans og áðurnefndu heilabylgjutóli. Notandinn er settur í huglægt reiptog og takmarkið að kljást við áreiti með slökun. Áreitið getur komið frá kunningja, vinnufélaga, eða hverjum sem er.  Langtímaáhrifin verða því þau að spilendur Tug og Mind verða betri í því að láta hinar ýmsu truflanir hafa sem minnst áhrif á sig og sóa því minni tíma í afleiðingar þess en áður. Þetta hefur þegar gert leikinn áhugaverðann í augum þeirra sem leggja mikið uppúr hárri framleiðni og góðri einbeitingu.

Nýr leikur í vinnslu

Gods and Mortals, er enn í vinnslu, en mun bjóða spilurum jafnt með og án heilarafrita að spila saman. Einn liður í þróun hans eru notendaprófanir á Facebook á næstu mánuðum, sem kynnir væntanlegum notendum tæknina og gefur á sama tíma fyrirtækinu innsýn í þeirra viðbrögð við þessari nýstárlegu tegund leikja.