Fréttasafn



  • Bygg

1. feb. 2011

ORF Líftækni 10 ára

Kaldar kveðjur frá alþingismönnum á afmælinu

ORF Líftækni hf er tíu ára í dag. Fyrirtækið var stofnað af þeim Birni Lárusi Örvari , Einari Mäntylä og Júlíusi B. Kristinssyni 1. febrúar 2001 til að þróa nýstárlega aðferð við framleiðslu verðmætra, sérvirkra próteina í erfðabreyttu byggi.

Þessum tímamótum verður fagnað með ýmsum hætti á afmælisárinu. Meðal annars verður haldið málþing um þýðingu erfðatækni í landbúnaði og almenningi verður boðið að heimsækja fyrirtækið og kynna sér þau vísindi sem liggja að baki starfsemi þess.

ORF Líftækni hefur vaxið hratt undanfarið enda er fyrirtækið nú komið á það stig að uppskera ávöxt rannsókna- og þróunarvinnu undanfarinna tíu ára með sölu á verðmætum afurðum. Í dag starfa um 40 manns hjá fyrirtækinu. Af þeim starfa 7 manns í hátæknigróðurhúsinu Grænu Smiðjunni í Grindavík.

Áætlanir gera ráð fyrir miklum vexti fyrirtækisins á næstu árum, meðal annars með frekari gróðurhúsaræktun og uppbyggingu á grænum úrvinnsluiðnaði í tengslum við akuryrkju. Í byrjun árs 2013 er gert ráð fyrir því að starfsmenn ORF Líftækni verði orðnir yfir eitt hundrað talsins. Viðræður við áhugasama byggbændur um umfangsmikla akuryrkju eru komnar vel á veg og stefnt er að ræktun í gróðurhúsum í Borgarfirði og á Egilsstöðum í sumar, auk starfseminnar á Suðurnesjum.

Áætlanir fyrirtækisins um vöxt á næstu árum eru þó háðar því að laga- og reglugerðarumhverfi fyrir ræktun og framleiðslu fyrirtækisins verði sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndunum. Það er alls ekki tryggt, eins og til dæmis má merkja af köldum kveðjum sem fyrirtækinu hafa borist frá Alþingi á afmælinu. Átta þingmenn, þar á meðal formaður umhverfisnefndar Alþingis og formaður og varaformaður sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að útiræktun á erfðabreyttum lífverum verði bönnuð. Yrði tillagan samþykkt myndi hún koma í veg fyrir framangreindar áætlanir fyrirtækisins um akuryrkju og nýsköpun í grænum iðnaði á landsbyggðinni.

ORF Líftækni er í fremstu röð fyrirtækja í heiminum á sínu sviði og hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís, Útflutningsráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar árið 2008. ISOkine™ og DERMOkine™ vörur fyrirtækisins hafa hlotið hrós fyrir hreinleika og gæði. Nokkur þeirra próteina sem ORF Líftækni framleiðir eru einnig eftirsótt í húðvörur og dótturfélag ORF Líftækni, Sif Cosmetics, hefur markaðssett húðdropa á alþjóðlegum markaði sem innihalda frumuvaka sem framleiddur er af ORF Líftækni. Vísindamenn ORF Líftækni hafa hlotið fjölmarga styrki úr opinberum samkeppnissjóðum til rannsókna og þróunar á tækni og afurðum sínum. Meðal annars hefur Tækniþróunarsjóður styrkt mikilvæga þætti rannsóknar og þróunar innan fyrirtækisins og samstarf þess við innlenda og erlenda háskóla.