Fréttasafn



  • SagaMedica á vörusýningu

2. feb. 2011

Markaðssókn í Kanada

Styrkur frá Tækniþróunarsjóði eflir útflutning á SagaPro

SagaMedica-Heilsujurtir ehf. hlaut nýverið veglegan Brúarstyrk frá Tækniþróunarsjóði til markaðssetningar á náttúruvörunni SagaPro í Kanada. Styrkurinn varð til þess að nú fer íslensk náttúruvara í fyrsta sinn í landsdreifingu á Kanadamarkaði.

SagaMedica framleiðir vöruna SagaPro sem notuð er til að draga úr tíðni næturþvagláta. Varan er unnin úr íslenskri ætihvönn sem sýnt hefur verið að innihaldi lífvirk efni sem geta gagnast til að draga úr fjölda salernisferða á nóttunni, en það er algengt vandamál hjá fólki af báðum kynjum. Klínísk rannsókn er nú á lokastigum framkvæmdar og er það í fyrsta sinn sem íslensk náttúruvara er rannsökuð á slíkan hátt.

Perla Björk Egilsdóttir segir styrkinn skipta miklu máli. „Við erum gríðarlega þakklát fyrir stuðning Tækniþróunarsjóðs á þessu verkefni. Með markaðssetningu í Kanada stígum við geysistórt skref fram á við sem mun gagnast okkur og íslensku atvinnulífi til framtíðar. Sjóðurinn hefur áður stutt við bakið á rannsóknarstarfi okkar og það er dýrmætt að fá stuðning svo fylgja megi eftir fyrri verkefnum með öflugri markaðssetningu á þeim vörum sem við höfum þróað á liðnum áratug.“