Fréttasafn



  • kaka ársins 2011

17. feb. 2011

Kaka ársins 2011

Sigurður M. Guðjónsson hjá Bernhöftsbakaríi bar sigur úr býtum í keppni um Köku ársins sem Landssamband bakarameistara efnir árlega til. Sala á kökunni í bakaríum félagsmanna Landssambands bakarameistara hefst um helgina, konudagshelgina.

Keppnin um köku ársins fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem dómarar meta og velja úr þá sem þykir sameina þá kosti að vera bragðgóð, falleg og líkleg til að falla sem flestum í geð og hlýtur hún titilinn Kaka ársins. Keppnin var haldin í samstarfi við Mjólkursamsöluna.

Alls bárust 16 kökur í keppnina í ár. Sigurkakan er samsett úr mörgum lögum, þ.á. m. eru franskur kexbotn, skyrfrauð, hindberjamauk og möndlubotn. Kakan er hjúpuð með hvítum súkkulaðihjúp og skreytt með makkarónukökum. Höfundur hennar er Sigurður M. Guðjónsson hjá Bernhöftsbakaríi.

Dómarar í keppninni voru María Hallbjörnsdóttir, gjaldkeri hjá Samtökum iðnaðarins, Árni Þór Árnason, matreiðslumaður hjá Mjólkursamsölunni og Ásthildur Guðmundsdóttir kennari við bakaradeild Hótel og matvælaskólans.

Sala á kökunni hefst í bakaríum félagsmanna LABAK um allt land um helgina og verður til sölu það sem eftir er ársins.