Fréttasafn



  • Mynd-Styrkir-Alcoa-2011

23. mar. 2011

Alcoa veitti 148 milljónir króna til samfélagsstyrkja árið 2010

Alcoa Fjarðaál og Samfélagssjóður Alcoa veittu tæplega 50 styrki til samfélagsverkefna á síðasta ári að upphæð 148 milljónir króna. Hæsta styrkinn, 87 milljónir króna fengu Vinir Vatnajökuls, samtök sem voru stofnuð í því skyni að efla og kynna Vatnajökulsþjóðgarð, bæði á Íslandi og í útlöndum. Björgunarsveitir á Austurlandi fengu rúmlega 12 milljóna króna styrk til að þjálfa og mennta austfirska björgunarsveitarmenn. Einnig fékk Hjálparstarf kirkjunnar tæplega 6 milljóna króna styrk, til aðstoðar þeim sem standa höllum fæti vegna fjárhagserfiðleika.   

Fjölmargir aðrir fengu styrki, m.a. íþróttafélög á Austurlandi, menningarmiðstöðin á Eskifirði, Rauði krossinn og verkefnið Þjóðleikur sem virkjar skólanemendur um allt Austurland  í leiklistarstarfi. Meðal annarra menningarverkefna má nefna Jasshátíð Austurlands og Vídeólistahátíðina Hreindýraland.is. Smærri styrkir voru einnig veittir. Krabbameinsfélag Austurlands fékk til að mynda 250 þúsund króna styrk til að bjóða upp á músíkþerapíu og Skógræktarfélag Austur-Skaftfellinga fékk 100 þúsund króna styrk til söfnunar krydd- og tejurta.

Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum veitti rúmlega 9 milljónir króna í styrki vegna sjálfboðaliðastarfs starfsmanna Fjarðaáls í fyrra. Meðal þeirra verkefna sem sjálfboðaliðar  unnu að, var bygging tveggja útiskólastofa við skólana á Reyðarfirði og Egilsstöðum, bygging palls við sjúkrahúsið í Neskaupstað og einnig var útbúið skautasvell á Egilsstöðum.   

Alcoa og Samfélagssjóður Alcoa hafa veitt samtals um 520 milljónum króna í styrki á Íslandi frá árinu 2003.