Fréttasafn  • Mainmanager-lógó

25. mar. 2011

Íslenskur hugbúnaður kemur til álita hjá San Francisco borg

Íslenskur hugbúnaður, MainManager frá ICEconsult, hefur verið valinn í hóp fimm bestu lausna í alþjóðlegri samkeppni á vegum Living Labs Global sem hefur það að markmiði að kynna nýjungar á sviði þjónustu í borgum.  

MainManager kemur til greina í flokknum „Creating the Next Generation of Government“, sem unnið er í samstarfi við San Francisco borg og verður lausn sigurvegarans tekin í notkun í borginni til að sanna notagildi sitt.  Markmið San Francisco er að finna lausn sem bætir opinbera þjónustu, þrátt fyrir að fjárveitingar séu að lækka.  Kerfið á að nýta þau gögn og þá innviði sem þegar eru til staðar í borginni með hagkvæmum hætti ásamt því að auka gegnsæi og aðkomu íbúa að ákvarðanatöku.

Alls voru skráð til leiks 245 verkefni frá 127 borgum og 30 löndum úr 6 heimsálfum. MainManager er eina lausnin í lokahópnum fyrir San Francisco verkefnið sem kemur utan Bandaríkjanna.

MainManager, sem hefur verið þróað alfarið hjá ICEconsult, þykir vera framúrstefnulegt og bjóða margar nýjungar sem ekki hafa sést áður í hugbúnaðarlausnum sem þessum. Meðal þess er áætlanagerð og verkefnaumsýsla fyrir sveitarfélög sem opnar möguleika fyrir aðkomu íbúanna að ákvarðanatöku með beinum hætti. Nýstárleg útfærsla með tengingum við önnur kerfi eins og t.d. landupplýsingakerfi (e. GIS) er meðal þeirra kosta sem skila kerfinu þessum árangri.

Sigurvegarinn verður krýndur á glæsilegri verðlaunahátíð Living Labs Global (e. Living Labs Global Award 2011 ceremony) í Stokkhólmi þann 12. maí næst komandi.

Lausn ICEconsult í samkeppninni

1, 2 og Reykjavík var keyrt á „City Direct“ lausn MainManager og er gott dæmi um notkun hans við bætta stjórnsýslu

Síða MainManager