Fréttasafn



  • Borgartún 35

18. apr. 2011

Vonast til að kjaraviðræður hefjist á ný eftir páska

Formaður SA, Vilmundur Jósefsson, segist í samtali við fréttastofu RÚV, vonast til þess að kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði hefjist á ný eftir páska en hlé varð á viðræðum á föstudaginn. Undir það tekur Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, en hann segist gera sér vonir um að aðilar vinnumarkaðarins geti sest niður aftur og gert aðra atlögu að því að ná kjarasamningi, helst samningi til þriggja ára. Hann segir stjórnvöld einnig verða að koma að samningaborðinu. Rætt var við Helga í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær þar sem fjallað var um stöðuna á vinnumarkaðnum og stjórnmálin.

Helgi sagði bæði fulltrúa atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar hafa lagt mikla og góða vinnu í að ná kjarasamningi. Fram hafi farið málefnalegar umræður og sameiginlegur skilningur sé á mikilvægi þess að það þurfi hagvöxt í landinu svo hægt sé ná fram raunverulegum kjarabótum og draga úr því mikla atvinnuleysi sem Íslendingar búi við.

Helgi segir samstarfið við verkalýðshreyfinguna hafa gengið vel en síður hafi gengið í samskiptum við ríkisstjórnina. Fulltrúar hennar verði þó að koma að samningaborðinu vegna þeirra aðstæðna sem séu uppi í þjóðfélaginu en það sé á færi stjórnvalda að ryðja burt hindrunum sem standi í vegi hagvaxtar, s.s. á sviði orkunýtingar og stórframkvæmda. Þá segir Helgi mikilvægt að ríkisstjórnin leysi úr deilum um fiskveiðistjórnunarkerfið. Vilji sé innan sjávarútvegsins að gera verulegar breytingar á starfsumhverfinu, Samtök atvinnulífsins hafi lagt fram tillögur til sátta og samstaða sé um það innan aðildarfélaga SA að fundin verði lausn í málinu. Helgi segir fullan vilja til þess innan atvinnulífsins að gerðar verði breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og t.a.m. hafi SI beitt sér í því máli.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í gærkvöld að atvinnurekendur hafi sent ríkisstjórninni ákall um að leggja atvinnulífinu lið við að koma landinu út úr kreppunni með því að fara atvinnuleiðina. Það sé það sem skipti máli. Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Vilhjálmur nú mikilvægt að undirbúa mál það vel að hægt sé að klára samningana með ríkisstjórninni eftir páska.

Í hádegisfréttum RÚV í dag kom síðan fram í viðtali við Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóra LÍÚ, að hægt væri að ná niðurstöðu um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu á mjög skömmum tíma ef vilji væri til þess.

Sjá nánar á vef SA