Fréttasafn  • orri_hauksson

1. maí 2011

Vaxtarlaus verðbólga raunveruleg ógn

 

Samningar á vinnumarkaði tókust ekki fyrir helgi né virtust þeir þokast nær niðurstöðu, eins og búast hefði mátt við eftir tilboð SA um að ljúka gerð samnings til þriggja ára. Orri Hauksson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins óskar launþegum til hamingju með daginn á 1. maí, en segir vonbrigði að enn sé ósamið.„Um hríð hefur samningur milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar legið á borðinu. Í honum er gert ráð fyrir umtalsverðum kauphækkunum, raunar meiri en samrýmist verðlagsstöðugleika að mati Seðlabankans“, segir Orri. Hann segist þó sammála því að tefla beri bjartsýnt fram, tækifæri hagkerfisins séu næg. Slík dirfska verði þó að vera raunhæf og byggjast á þeirri grundvallarforsendu að raunveruleg verðmæti verði sköpuð í landinu á næstu árum. Ella séu kauphækkanirnar ábyrgðarlausar og án innistæðu. „Það þarf nauðsynlega að skýra stöðuna í sumum af stærstu atvinnuvegum landsins, nýtingu auðlinda til lands og sjávar, og hleypa af stað arðbærum framkvæmdum sem hafa beðið allt of lengi. Þarna heldur ríkisstjórnin á öllum lykilspilunum og hefur sýnt lítið á þau fram til þessa. Með góðri trú má hins vegar skilja útspil ríkissjórnarinnar frá því síðastliðið fimmtudagskvöld sem jákvætt innlegg í að eyða óvissu og greiða götu verðmætasköpunar á næstu árum. Besti kosturinn er að semja hið fyrsta á þeirri forsendu. Reyndar hef ég þá trú að það gangi eftir og  að samningarnir verði festir á næstu dögum. En slíkur samningur er með  fyrirvara um að yfirvöld taki fótinn af verðmætabremsunni, eins og þau segjast munu gera“. Orri byggir trúa sína á að brátt semjist á því að hinn valkosturinn sé svo slæmur.

Orri segist skilja vel að launþegar séu orðnir langeygir eftir að byggja upp kaupmátt á ný og draga úr atvinnuleysi, enda hafi kjör allra rýrnað mikið síðustu misserin. „Þegar upp er staðið þurfa kjarabætur að byggja á aukinni verðmætasköpun, ella er enginn vöxtur framundan. Tökum líka eftir að þótt vöxtur hefjist ekki á ný er samt sem áður raunveruleg hætta á hækkandi verðlagi. Þetta tvennt saman er eitruð blanda“, segir Orri og bendir á að síðustu mælingar sýni að í augnablikinu sé umtalsverð verðbólga. „Það reka auðvitað allir upp stór og áhyggjufull augu þegar verðlag hækkar hátt að heilu prósenti á einum mánuði, hér í miðri stöðnun. Megnið af því eru þó ytri hækkanir og hækkanir opinberra aðilla, fremur en að innlend eftirspurnin sé skyndilega að rjúka svo hratt upp. Eina raunhæfa leiðin er að vaxa út úr þessari stöðu, svo lendum ekki í hinu endanlega skrúfstykki, þ.e. vítahring verðbólgu og vaxtarleysis. Með því að óvissunni yfir stórum atvinnugreinum er eytt er hægt að gera langtímasamning og tryggja frið og sameiginlega hagsmuni launafólks og atvinnurekenda á vinnumarkaði. Það er aftur forsenda hagvaxtar, kaupmáttar og að störf skapist. Ég hef ekki trú á að nokkur telji allsherjarverkfall sé happadrjúg leið á þessum viðkvæma tímapunkti. Tap samfélagsins, þar með launþega, yrði einfaldlega óbætanlegt“, segir Orri að lokum.