Fréttasafn  • Tolva

1. jún. 2011

ICEconsult hlýtur önnur verðlaun í "Future Internet Summit Award"

Íslenskur hugbúnaður, City Direct frá ICEconsult, hafnaði í öðru sæti í alþjóðlegri samkeppni, „Future Internet Summit Award“, sem haldin er í tengslum við ráðstefnuna „European Summit on the Future Internet“.  Markmið hennar er leita uppi nýjar lausnir sem eru líklegar til að hafa afgerandi áhrif á mótun notkunar á internetinu í framtíðinni á ákveðnum sviðum. 

City Direct er lausn fyrir sveitarfélög til að gefa íbúum kost á að hafa áhrif á ákvarðanatöku um framkvæmd valdra verkefna með beinum hætti.  Margir þekkja verkefnið 1, 2 og Reykjavík, sem notaði fyrri kynslóð þessarar lausnar og gerði íbúum kleift að skrá ábendingar til borgarinnar.   City Direct tekur nú næsta skref og gefur íbúum tækifæri til að velja á milli verkefna.

City Direct byggir á MainManager, sem hefur verið þróað alfarið hjá ICEconsult, og má þannig samnýta þau öflugu verkfæri sem þar eru svo sem áætlanagerð og verkefnastjórnun auk tenginga við önnur kerfi eins og t.d. landupplýsingakerfi (e. GIS).

 

Verðlaun verða afhent á ráðstefnunni sem haldin verður þann 6. júní nk. í Lúxemborg en þar mun Gunnlaugur Hjartarson framkvæmdastjóri ICEconsult kynna lausnina og veita verðlaununum viðtöku.