Fréttasafn  • Trésmiðjan Rein

7. jún. 2011

Trésmiðjan Rein fyrsta fyrirtækið sem tekur upp nýtt gæðakerfi SI

Trésmiðjan Rein er fyrsta fyrirtækið sem gerir samning við SI um innleiðingu gæðastjórnunar ásamt uppbyggingu og miðlægri vistun gæðakerfa í mánaðalegri áskrift. Samtökin gerðu á sínum tíma drög eða sýnishorn af gæðakerfi sem félagsmönnum hefur staðið til boða að laga að eigin rekstri. Kerfið hefur í tímans rás smám saman þróast yfir í vefræna útfærslu sem félagsmönnum stendur nú til boða. 

Sigmar Stefánsson, framkvæmdastjóri Reins segir aðgang að gæðakerfi SI spara ómælda vinnu við þróun og uppsetningu gæðastjórnunar innan fyrirtækisins. „Fyrirtækið er að stækka og eflast og kröfur viðsskiptavina að aukast. Það kallar á markvissari stjórnun. Það er von okkar að innleiðing á gæðakerfi SI muni hámarka afköst starfsmanna, auka nýtni og bæta þjónustuna.“ 

Saga Trésmiðjunnar Rein ehf. nær aftur til ársins 1962 þegar Stefán Óskarsson húsasmíðameistari tók að sér sitt fyrsta verk sem sjálfstæður verktaki. Fyrirtækið var rekið sem sf. fram til ársins 1996 þegar það var gert að ehf. Stefán og kona hans Aðalbjörg Gunnlaugsdóttir áttu allt hlutafé til ársins 1998 þegar sonur þeirra Sigmar eignast hlut í félaginu en hann á nú helming á móti foreldrum sínum.

Að sögn Sigmars er verkefnastaðan góð næstu mánuðina og ýmis verkefni á döfinni. „Í byrjun árs 2009 þegar bölmóður og svartsýni voru orðin allsráðandi í þjóðfélaginu ákváðum við að berjast á móti straumnum og leita að nýjum viðskiptatækifærum. Þá kom sú hugmynd upp að að byggja færanleg hús í einingum og leigja út. Nú eru tvær eignir í leigu, 250 m2 þjónustuhús við Dimmuborgir í Mývatnssveit, 110 m2 leikskóli á Húsavík og fleiri verkefni eru í skoðun“.

Fyrirtækið tekur að sér verkefni af ýmsum stærðum og gerðum enda vel tækjum búið. Fjöldi starfsmanna hefur verið mismunandi eftir verkefnastöðu og atvinnuástandi hverju sinni en síðustu ár hefur starfsmönnum fjölgað og nú eru 18 manns á launaskrá. Þar af eru 11 iðnmenntaðir, 2 nemar, ásamt vélamönnum og sérþjálfuðum verkamönnum. Á síðustu 6 árum hafa útskrifast 6 nemar og eru 4 þeirra við störf við fyrirtækið.