Fréttasafn  • DUST-514-_-Screenshots-2

8. jún. 2011

CCP og Sony í samstarf

Sony Computer Entertainment Inc. og íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP hafa gert samstarfssamning um útgáfu á tölvuleiknum DUST 514 fyrir Playstation 3 leikjatölvuna.

Tilkynnt var um samstarfið á blaðamannafundi Sony sem var haldinn í Memorial Sport höllinni í Los Angeles í gær.

Áætlað er að leikurinn komi út sumarið 2012, og mun þá fylgja í kjölfarið á EVE Online sem kom út árið 2003. Rúmlega 360.000 áskrifendur eru að EVE Online um allan heim.

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP kynnti leikinn ásamt Jack Tretton, forstjóra Sony Computer Entertainment America. Mörg þúsund áhorfendur voru í salnum, þar á meðal hundruð  blaðamanna hvaðanæva úr heiminum.

Dust 514 er fyrstu persónu skotleikur þar sem spilarar berjast með skotvopnum, brynvögnum og flugvélum. Inn í leikinn blandast ákveðnir þættir úr leikjum, sem kallast rauntíma herkænskuleikir.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu DUST 514