Fréttasafn  • Hordur-i-Matis

8. jún. 2011

Hörður G. Kristinsson hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2011

Dr. Hörður G. Kristinsson rannsóknastjóri Matís hlaut Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir 2011 sem voru afhent á Rannsóknaþingi Rannís í dag. Tók Hörður við viðurkenningunni úr hendi forsætisráðherra sem jafnframt er formaður Vísinda- og tækniráðs.

Í störfum sínum hefur Hörður sýnt að hann er afbragðs vísindamaður, kennari og stjórnandi. Hann hefur sýnt frumkvæði og veitt forystu við uppbyggingu á nýju fræðasviði sem nú þegar er farið að skila arði inn í þjóðarbúið. Hann er góð fyrirmynd nemenda og samstarfsmanna og lykilstarfsmaður í vaxandi fyrirtæki. Það var einróma álit dómnefndar Hvatningarverðlaunanna að Hörður G. Kristinsson uppfylli öll viðmið hennar og sé því verðugur handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2010. 

Hörður lauk grunnnámi í líffræði frá Háskóla Íslands 1996. Í meistaranámi við Washington háskóla í Seattle vann hann við rannsóknir á nýtingu aukaafurða sjávarfangs með notkun ensíma. Árið 2001 lauk hann doktorsnámi í matvælalífefnafræði frá Massachusetts háskóla þar sem hann lagði stund á rannsóknir á eiginleikum fiskipróteina. Hörður flutti til Íslands 2007 og hóf störf hjá Matís árið 2008 en gegnir jafnframt dósentsstöðu við Flórídaháskóla.

Hörður hefur verið brautryðjandi við að byggja upp rannsóknir á lífefnum og lífvirkum efnum úr íslenskri náttúru. Hann gegndi lykilhlutverki við uppbyggingu á Líftæknisetri Matís á Sauðárkróki sem opnaði 2008. Rannsóknir Harðar hafa haft mikið hagnýtt gildi og er hann handhafi þriggja birtra einkaleyfa. Hann hefur birt efni um rannsóknir sínar í virtum ritrýndum vísindaritum og flutt fyrirlestra á ráðstefnum víða um heim. Hann stýrir nokkrum fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum og er virkur í kennslu en doktorsnemar hans eru orðnir tíu talsins og meistaranemarnir níu.

Um Hvatningarverðlaunin
Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapi væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin, sem nú eru 2 milljónir króna, hafa verið veitt frá árinu 1987, í fyrsta sinn á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands. Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.

Sjá nánar.