Fréttasafn



  • Borgartún 35

8. jún. 2011

Veikburða hagvöxtur

Þótt hagvöxtur hafi aukist um 2% að raungildi á fyrsta ársfjórðungi 2010 frá fjórðungnum á undan er hagvöxturinn veikburða að mati Bjarna Más Gylfasonar, hagfræðings Samtaka iðnaðarins. „Það mælist 1,6% samdráttur í einkaneyslu, 6,8% í fjárfestingu og 8,2% samdráttur í útflutningi. Þessi vöxtur er drifinn áfram af birgðabreytingum, þ.e. vöruframleiðslu sem á eftir að selja. Vöruskiptin í apríl benda ekki til að farið sé að ganga á þessar birgðir. Að mínu mati er það undarlegt að birgðabreytingar skuli vera drifkraftur hagvaxtarins í upphafi árs."

Sé horft á ársbreytingu landsframleiðslu hækkar landsframleiðsla um 3,4%, einkaneysla um 1,5% og fjárfesting um 13,3% en frá mjög lágu fjárfestingastigi. Útflutningur dróst hins vegar saman um 1,6% en innflutningur jókst um 1,3%.

Bjarni Már segir að það sé vissulega ánægjulegt að sjá loksins jákvæðar hagvaxtatölur og að við séum aðeins að rétta úr kútnum. „Hins vegar er það verulegt áhyggjuefni að við séum ekki að ná að nýta okkur lágt raungengi og ágæta samkeppnisstöðu til að auka útflutning. Vöxturinn í einkaneyslu er veikburða þótt hann sé jákvæður. Fjárfesting er aðeins að taka við sér samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar en þrátt fyrir vöxt var hún aðeins um 12,5% af landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi 2011. Markmiðið í kjarasamningum var að ná þessu hlutfalli í 20% og til að hagkerfið taki við sér af alvöru þarf að ná þessu markmiði. Eina leiðin til að tryggja raunverulegan kaupmátt, atvinnu og hagvöxt er að fjárfesta“, segir Bjarni Már að lokum.