Fréttasafn  • Prýði

21. jún. 2011

Brúðkaup í höndum meistara

Prýði, hópur þjónustuiðngreina innan SI, hafa gert samkomulag við ungt par um að sjá um undirbúning sem lýtur að væntanlegu brúðkaupi þeirra þeim að kostnaðarlausu. Athöfnin fer fram á Ljósanótt í Reykjanesbæ og verður gestum hátíðarinnar boðið að fylgjast með hluta af undirbúningi s.s. förðun, hárgreiðslu og ljósmyndun.

Prýði og SI munu útvega brúðhjónunum tilvonandi, þeim Magnúsi Sverri Þorsteinssyni og Guðrúnu Sædal Björgvinsdóttur, giftingahringa, brúðarkjól, herrajakkaföt, höfuðskraut, hársnyrtingu, snyrtimeðferð og ljósmyndatöku. Á móti samþykkja brúðhjónin að koma fram í kynningu á Prýði og þeirri fagmennsku sem félagsmenn búa yfir.

Prýði – í höndum meistara er nafn á hópi þjónustuiðngreina innan Samtaka iðnaðarins. Um er að ræða samstarfsvettvang fimm fagfélaga. Hlutverk Prýði er annars vegar að stýra sameiginlegu markaðsstarfi út á við og hins vegar öflugu fagstarfi og stefnumótun í menntamálum.

Þau fagfélög sem standa að baki Prýði eru: Meistarafélag í hárgreiðslu, Ljósmyndarafélag Íslands, Félag íslenskra gullsmiða, Félag íslenskra snyrtifræðinga og Klæðskera- og kjólameistarafélagið.