Fréttasafn



  • Borgartún 35

21. jún. 2011

Samtök atvinnulífsins staðfesta kjarasamninga þrátt fyrir vanefndir ríkisstjórnar Íslands

Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að staðfesta gildistöku kjarasamninga frá 22. júní 2011 í samræmi við ákvæði kjarasamninganna sem undirritaðir voru 5. maí sl. Með því öðlast samningarnir gildi til 31. janúar 2014. Forsendur samninganna verða metnar af sérstakri forsendunefnd aðila í janúar 2012 og janúar 2013 og ef þær standast halda þeir gildi sínu. Ef forsendur standast ekki getur annað tveggja gerst, að þeir haldi gildi sínu með breytingum sem aðilar koma sér saman um eða að þeim verði sagt upp af öðrum hvorum aðila eða báðum og verða þeir þá lausir, annað hvort frá 1. febrúar 2012 eða 1. febrúar 2013.

SA telja að atvinnuleiðin sé eina færa leiðin fyrir þjóðina út úr kreppunni og stöðugleika á vinnumarkaði nauðsynlegan til þess að hægt sé að bæta lífskjör og minnka atvinnuleysi.  

Ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram fjárfestingar- og hagvaxtaráætlun, sem liggja átti fyrir í lok maí, en fjárfestingar eru lykilforsenda þess að hér náist 4-5% hagvöxtur á árunum 2012 og 2013.

Sérfræðinefnd ríkisstjórnarinnar gaf stefnu hennar í sjávarútvegsmálum falleinkunn og sama hefur OECD gert. SA krefjast þess að ríkisstjórnin standi við eigin yfirlýsingar um raunverulega sátt um hagkvæman sjávarútveg.

Samtök atvinnulífsins vinna að því að tryggja hag alls atvinnulífsins og þjóðarinnar. Tækju samningarnir ekki gildi 22. júní hefði það mikla röskun og óvissu í för með sér. Samtök atvinnulífsins telja slíka ákvörðun ekki réttlætanlega þrátt fyrir vanefndir ríkisstjórnarinnar.

Atvinnuleiðin og hagvöxtur eru forsendur þess að atvinnulífið rísi undir kjarasamningunum og að unnt verði að auka kaupmátt fólks á næstu árum.

Sjá nánar á http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/5240/