Fréttasafn  • Hæstiréttur Íslands

22. jún. 2011

ÍAV dæmdar verðbætur í Hæstarétti

Hæstiréttur staðfesti í gær niðurstöðu héraðsdóms Reykjaness um rétt ÍAV til greiðslu verðbóta vegna byggingar sundlaugar og viðbyggingar við íþróttahús á Álftanesi. Var Fasteignafélagið Fasteign ehf. dæmt til að greiða ÍAV 82 milljónir króna og þar af námu verðbæturnar skv. dómnum 75 milljónir króna.

Tildrög málsins voru þau að Fasteign hf. samdi við ÍAV um verkið í mars 2008 í kjölfar útboðs í desember 2007. Samningsfjárhæðin var tæpar 604 milljónir og var m.a. tekið fram í samningnum að engar verðbætur yrðu greiddar á samningstímanum.

Deila fyrirtækjanna í kjölfarið snérist síðan um það hvort forsendubrestur hafi orðið á verksamningi aðila frá mars 2008 og hvort 36. gr. samningalaga yrði beitt þar sem bersýnilega hafi verið ósanngjarnt að bera fyrir sig ákvæðið í samningnum um að engar verðbætur yrðu greiddar á samningstímanum.

Taldi Hæstiréttur að ósanngjarnt væri af hálfu Fasteignar ehf. að bera fyrir sig ákvæðið í í samningum um að engar verðbætur yrðu greiddar á samningstímanum. 

Dæmdar verðbætur voru þó nokkuð lægri en í dómi héraðsdóms.

Héraðsdómur hafði vísað m.a. til þeirrar niðurstöðu dómkvaddra matsmanna í málinu að óvissuástandið á byggingamarkaði á árinu 2008 vegna óvæntrar efnahagsþróunar innanlands hafi orðið til þess að fleiri byggingaraðilar með óverðbætta verksamninga, hafi fengið leiðréttingar. Í því sambandi var sérstaklega vísað til þess að Samtök iðnaðarins hefðu beitt sér fyrir hönd sinna félagsmanna og samkomulag náðst við Reykjavíkurborg, einn stærsta verkaupa landsins, um að taka upp verðbætur miðaðar við hækkun byggingarvísitölu og hafi samkomulag þess efnis verið undirritað 1. mars 2008.

Lesa dóminn.