Fréttasafn



  • EUWIIN 2011

12. ágú. 2011

Alþjóðleg ráðstefna í Hörpu um nýsköpun

Samtök frumkvöðlakvenna halda glæsilega alþjóðlega ráðstefnu, EUWIIN 2011, í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu þann 7.-8.september næstkomandi, og er gert ráð fyrir að minnsta kosti 300 manns víðsvegar að úr heiminum. Ráðstefnan átti að vera í maí en frestaðist vegna eldgoss í Grímsvötnum.

Tilgangur ráðstefnunnar er að vekja athygli á uppfinninga- og frumkvöðlastarfsemi kvenna og vonast er til að það muni stuðla að betri tækifærum kvenna og auka áhugann á málefninu. Karlar eru sérstaklega hvattir til þess að mæta og taka þátt og kynna sér hvað konur eru að finna upp, víðsvegar í heiminu.

Dorrit Moussaieff, forsetafrú Íslands er verndari ráðstefnunnar.

Borgarstjórinn í Reykjavík mun opna ráðstefnuna með móttöku í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 6. september í samvinnu við 5 sendiherra. Alexandra K. Argunova listakona mun sýna verk sín af þessu tilefni, en hún fékk EUWIIN viðurkenningu 2009 í Helsinki fyrir verkefnið sitt sem varðar menningartengsl Íslands og Yakutíu.

Röð fyrirlestra og pallborðsumræðna munu fara fram í Hörpu dagana 7. og 8. september með stuttum hádegis og
kaffihléum þar sem boðið verður upp á létt snarl. R
áðstefnugestir fá að njóta tónlistaratriðis í boði Margrétar Pálmadóttur og Domus Vox.

Ráðstefnan í Hörpu verður fjölmennasta samkoma frumkvöðlakvenna í Evrópu á þessu ári. Það verða fluttir fyrirlestrar þar sem m.a. verður fjallað um hugverkaréttindi, vöruþróun, stofnun fyrirtækja, fjárfestingar, markaðsvæðingu og
upplýsingatækni. Tölfræðin sýnir að konur fá 20% af styrkjum sem í boði eru á Íslandi og fá lægri styrk upphæðir. Konur eiga 9% af skráðum einkaleyfum í Evrópu. Konur eiga 20% af fyrirtækjum á Íslandi. Konur eiga 5-15% af
tæknifyrirtækjum í Evrópu. Þessar tölur sýna að mikil þörf er á að hvetja konur áfram og að gera þær konur sýnilegar sem framkvæma hugmyndir sínar.

Þeim konum sem tilnefndar verða til viðurkenningar mun gefast kostur á að sýna og kynna verkefni sín eða vörur á ráðstefnunni. Í lok fyrri ráðstefnudagsins verður tískusýning í samvinnu við Eskimo, þar sem íslenskir og erlendir hönnuðir munu sýna glæsilega umhverfisvæna hönnun, undir stjórn breska hönnuðarins Adubayo Jones.
Ráðstefnunni lýkur síðan, 8.september með hátíðarkvöldverði í Lava, veitingahúsi Bláa lónsins, þar sem viðurkenningar verða veittar þeim uppfinninga- og frumkvöðlakonum sem þykja hafa skarað fram úr. 10 dómarar frá 6
löndum meta verkefnin.

Félag kvenna í nýsköpun, KVENN, var stofnað árið 2007. Þá komu saman konur sem fengust við nýsköpun á ýmsum
sviðum, sumar höfðu fengið alþjóðlegar viðurkenningar og tekið þátt í Nýsköpunarkeppnum og aðrar voru búnar að stofna fyrirtæki um hugmyndir sínar.
Það er íslenska tengslanetið KVENN sem ber hitann og þungan af skipulagi þingsins að þessu sinni en félagið á aðild að evrópska tengslanetinu EUWIIN og GWIIN, alþjóðlegu tengslaneti frumkvöðlakvenna, sem teygir anga sína til Asíu, Afríku og Suður-Ameríku.

Fjölmennar ráðstefnur EUWIIN, í Berlín 2007 og síðan Helsinki 2009 sýndu, svo ekki varð um villst, að mikil þörf var á tengslaneti á borð við þau sem hér um ræðir enda þykja þau hafa skapað frjóan jarðveg og vettvang fyrir skapandi og hugmyndaauðugar konur.

Nánari upplýsingar

Allar nánari upplýsingar veitir Elinóra Inga Sigurðardóttir, formaður og stofnandi KVENN, í síma 898 4661. Netfang: elinoras@gmail.com.

Upplýsingar og skráning er á http://www.kvenn.net/