Harpa Einarsdóttir vann fyrstu hönnunarkeppni Reykjavík Runway
Hönnuðurinn Harpa Einarsdóttir sem hannar undir merkinu ZISKA vann fyrstu hönnunarkeppni Reykjavík Runway sem var haldin í Listasafni Reykjavíkur 18. ágúst.
Harpa lærði fatahönnun í Listaháskóla Íslands og fór á öðru ári í starfsnám hjá New York merkinu threeASFOUR. Eftir LHÍ vann hún á búningadeild Þjóðleikhússins. Síðar fór hún til CCP þar sem hún teiknaði og hannaði útlit fyrir EVE online leikinn. Harpa fluttist síðan til Atlanta í BNA þar sem hún var yfirhönnuður útlits í leiknum World of Darkness. Síðastliðinn október sagði hún skilið við CCP og hóf að vinna sjálfstætt.
Harpa sækir innblástur til gamalla ævintýra, netsins og náttúrunnar jöfnum höndum. Innblásturinn fyrir sumarlínuna 2012 fékk hún meðal annars úr ævintýramyndskreytingum Edmunds Dulac frá 1925. Prentið í textílinn kemur frá náttúrunni og notar hún ísjaka, kristalla og marmara sem fyrirmyndir.
Harpa fær í verðlaun 500.000 krónur og stuðning frá Reykjavík Runway í eitt ár.
SI óska Hörpu innilega til hamingju en samtökin styrktu hönnunarkeppnina.