Fréttasafn



  • cleantech-logo

26. ágú. 2011

Fyrsta starfsár CleanTech Iceland viðburðaríkt

Á fyrsta aðalfundi CleanTech Iceland sem haldinn var í morgun var farið yfir viðburðaríkt ár í starfsemi félagsins, En CTI sem var stofnað 1. júní 2010 hefur nú lokið sínu fyrsta starfsári. Á félagaskrá CTI eru 14 fyrirtæki, þau starfa á ýmsum sviðum en eiga það sameiginlegt að vinna að þróun umhverfisvænna tæknilausna.

Á aðalfundinum lagði fráfarandi stjórn fram tillögur um að áherslur næsta árs verði á fjármögnun fyrirtækjanna, markaðssetningu og erlent samstarf og á innri uppbyggingu félagsins. Fundarmenn tóku undir það og styðja nýja stjórn til góðra verka.

Á liðnu ári tók CleanTech Iceland þátt í fjölda verkefna og viðburða. Fyrsta verk stjórnar var að móta starf félagsins og skapa umgjörð þess. Sett var upp heimasíða,lógó hannað og skerpt á áherslum og markmiðum. Haldnir voru morgunverðarfundir þar sem félagar kynntust betur og fjölluðu um málefni sem eru í brennidepli, t.d. vistvæna orkugjafa í samgöngum. Félagið kom að undirbúningi funda og ráðstefna í samstarfi við aðra um orkusparnað, viðskiptatækifæri í grænni tækni, orku fyrir samgöngur og um ívilnanir nýfjárfestinga. CTI tók þátt í undirbúningi og þróun á námskeiði á vegum Íslandsstofu um markaðssetningu á grænni tækni erlendis. Hópurinn var einnig í talsverðum samskiptum við stjórnvöld um mótun regluverks og umgjarðar fyrirtækja á þessu sviði.

CTI lagði frá upphafi áherslu á að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og starfar til að mynda í norræna verkefninu Nordic Cleantech Alliance, en nokkrir félagsmenn eru beinir þátttakendur í því. Félagið hafði einnig aðkomu að norrænu verkefni um grænar viðskiptalausnir en í lokaskýrslu er sagt frá viðskiptahugmyndum tveggja íslenskra fyrirtækja, Greenqloud og IceConsult. Fulltrúi CTI tók þátt í ráðstefnunni CanNord í Toronto um vistvænar borgir, þar sem
kynning á CTI og félagsmönnum fór fram. Fulltrúar stjórnar fóru síðan á vormánuðum ásamt fulltrúa Íslandsstofu til Noregs og Danmerkur og kynntu sér starfsemi systursamtaka og klasa á sviði grænnar tækni. Mikil gróska er um
allan heim í grænni atvinnustarfsemi og því full þörf á að móta samstarf og áherslur á því sviði hérlendis.

Á aðalfundinum í morgun var kjörin ný stjórn CleanTech Icleland. Formaður var kosinn KC Tran, Carbon Recycling International. Aðrir stjórnarmenn eru Ásbjörn Torfason, Vistvæn Orka, Eiríkur Sveinn Hrafnsson, Greenqloud, Guðný
Reimarsdóttir, Eco Nord og Ingvar Kristinsson, Fjölblendi. Varamenn eru Jón Ágúst Þorsteinsson, Marorka og Axel Gunnlaugsson, ReMake Electric.