Fréttasafn



  • Frumtak-datamarket

31. ágú. 2011

Frumtak fjárfestir í DataMarket

Frumtak hefur fest kaup á hlut í DataMarket ehf.

DataMarket hjálpar fólki að finna og skilja töluleg gögn. Fyrirtækið hefur þróað og rekur gríðarmikið safn slíkra gagna frá tugum alþjóðlegra fyrirtækja og stofnanna, svo sem Sameinuðu Þjóðunum, Alþjóðabankanum, Eurostat og BP. Lausnir DataMarket gera notendum kleift að leita í, bera saman og skoða myndrænt gögn þessarra aðila á einum stað. Auk þess veitir fyrirtækið bæði gagnaveitum og notendum gagna ýmiskonar þjónustu byggða á þessum sömu lausnum.

Hjá félaginu starfar hópur sérfræðinga með mikla reynslu í upplýsingatækni og gagnavinnslu.

„DataMarket er spennandi fyrirtæki“ sagði dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks.  „Félagið
hefur brotið blað í framsetningu gagna og aðgengi að gögnum á netinu.  Lausnir félagsins eiga tvímælalaust erindi á
heimsmarkað og það er ánægjuefni að Frumtak geti lagt félaginu lið í að styrkja
alþjóðlegt markaðsstarf og nýta það tækniforskot sem félagið hefur“.

„Við höfum þróað frábæra lausn sem virðist vera að koma fram á mjög heppilegum tíma.“ segir Hjálmar Gíslason, framkvæmda­stjóri DataMarket. „Áhugi á gögnum og gagnadrifinni ákvarðanatöku hefur sennilega aldrei verið meiri og myndræn framsetning – sem við höfum lagt mikla áherslu á – virðist í mörgum tilfellum vera það sem þarf til að brúa bilið milli talna á blaði og raunverulegra upplýsinga sem fólk getur notað til að mynda sér skoðun og taka ákvarðanir.“

Frumtak er samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyris­sjóðum landsins og þriggja banka. Frumtak fjárfestir í nýsköpunar- og sprota­fyrirtækjum sem þykja vænleg til vaxtar og útrásar.  Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskiptaáætlanir.

Áhugasamir geta kynnt sér lausnir DataMarket á vefsíðunni: http://datamarket.com/