Fréttasafn



  • Brúðhjón á ljósanótt1

1. sep. 2011

Brúðkaup á Ljósanótt

Á Ljósanótt þann 2. september nk. ætlar ungt par úr Reykjanesbæ, fótboltakappinn Magnús Sverrir Þorsteinsson og Guðrún Sædal Björgvinsdóttir, að ganga í það heilaga.

Undirbúningur brúðkaupsins er liður í dagskrá Ljósanætur en gestum er boðið að fylgjast með förðun og hárgreiðslu á veitingastaðnum í Duus húsi frá kl. 10.00 til 14.00. Að lokinni sjálfri athöfninni kl. 17.00 aka brúðhjónin gegnum bæinn að Duus húsi aftur þar sem ljósmyndari tekur myndir af nýgiftu hjónunum og er gestum og gangandi velkomið að fagna brúðhjónunum og fylgjast með myndatökunni.

Prýði, hópur þjónustugreina innan SI, gerðu í vor samkomulag við brúðhjónin um að sjá um hluta undirbúningsins þeim að kostnaðarlausu. Í því fólst að Prýði og SI útveguðu þeim giftingahringa, brúðarkjól, herrajakkaföt, höfuðskraut, hársnyrtingu, snyrtimeðferð og ljósmyndatöku. Á móti samþykktu brúðhjónin að taka þátt í kynningu á Prýði og þeirri fagmennsku sem félagsmenn búa yfir.

Brúðkaupsverkefnið hefur verið í fullum gangi í sumar. Magnús og Guðrún hafa staðið í ströngu við undirbúninginn og notið aðstoðar fagmanna innan Prýði. Þau hafa rætt við ljósmyndarann Írisi Pétursdóttur um fyrirkomulag myndatöku, valið sér hringa hjá Fjólu gullsmið, farið í margvíslegar snyrtimeðferðir hjá snyrtistofu Huldu og hjá Ragnheiði á snyrtistofunni Coco og ákveðið brúðargreiðslu í samráði við hárgreiðslumeistara á stofunni Hár og rósir. Brúðurin klæðist kjól sem kjólameistarinn Birna Huld saumar en brúðguminn verður í sérsniðnum jakkafötum frá Berglindi í Klæðskerahöllinni.

Þess má geta að öll fagþjónusta nema gerð jakkafatanna er sótt til heimamanna.

Prýði – verk í höndum meistara er nafn á hópi þjónustuiðngreina innan Samtaka iðnaðarins. Um er að ræða samstarfsvettvang fimm fagfélaga. Fagfélögin sem standa að baki Prýði eru: Meistarafélag í hárgreiðslu, Ljósmyndarafélag Íslands, Félag íslenskra gullsmiða, Félag íslenskra snyrtifræðinga og Klæðskera- og
kjólameistarafélagið.

Tilgangur Prýði með verkefninu er fyrst og fremst að kynna þá fagmennsku sem félagsmenn búa yfir og undirstrika mikilvægi þess að versla við fagmann í viðkomandi fagi.