Fréttasafn



  • Full borg matar

5. sep. 2011

Full borg matar 14. - 18. september

Reykjavík Real Food Festival

Full Borg Matar / Reykjavík Real Food Festival er matar- og uppskeruhátíð tileinkuð íslenskum mat og matargerð sem haldin verður í fyrsta sinn dagana 14. – 18. September í haust. Markmið hátíðarinnar er að kynna íslenskan mat og matarhefðir á léttan og skemmtilegan hátt fyrir öllum sem áhuga hafa á góðum og girnilegum mat.

Dagskrá hátíðarinnar verður sneisafull af skemmtilegum viðburðum fyrir alla fjölskylduna. Boðið verður upp á markað í
miðborg Reykjavíkur þar sem hægt verður að kaupa, prufa og smakka ýmsar matvörur beint frá framleiðendum og fá um leið að vita hvernig maturinn er framleiddur og hvaðan hann kemur.

Veitingastaðir í borginni taka þátt í hátíðinni með því að bjóða upp á sérstaka hátíðarmatseðla þar sem allir ættu að
finna eitthvað sem hentar þeirra smekk og fjárhag. Veitingastaðir sem þykja útfæra bestu matseðlana fá svo heiðursverðlaun í lok hátíðar en veitt verða verðlauní þremur flokkum eða besti hátíðarmatseðill, besta brasserí og besta fjölskyldumátíðin.

Boðið verður upp á fjölda skemmtilegra viðburða en fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök geta staðið fyrir eigin
uppákomun sem tengjast mat og matarmenningu og skráð þær í sameiginlegt viðburðadagatal sem aðgengilegt verður á heimasíðu hátíðarinnar.  Meðal viðburða á hátíðinni verða Matardagar Matvís þar sem Landslið Matreiðslumeistara velur matreiðslumann og matreiðslunema ársins.  Viðburðadagatalið verður nánar kynnt síðar en skráning viðburða stendur yfir.

Allir sem áhuga hafa á góðum mat geta tekið virkan þátt í hátíðinni með því að mæta á markaðinn, fara út að borða á
veitingastöðum, taka þátt í uppskriftasamkeppnum, sækja námskeið og fræðslu um hollar matarvenjur og matargerð svo fátt eitt sé nefnt.

Bakhjarlar hátíðarinnar eru
Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, Markaðsráð kindakjöts, Iceland responsible Fisheries, Sölufélag garðyrkjumanna og Svínaræktarfélag Íslands.

Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á vefsíðunni www.fullborgmatar.is og hægt er að senda tölvupóst á netfangið info@fullborgmatar.is eða hringja í síma 820 1980 til að skrá viðburði, panta sölubás á markaði eða skrá veitingastað til þátttöku í hátíðinni.