Fréttasafn



  • NKG2011-ólafur Ragnar

14. sep. 2011

Hugmyndaríkir grunnskólanemendur verðlaunaðir

Verðlaun voru veitt í lokahófi Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda sl. sunnudag en keppnin var nú haldin í 20.
sinn. Athöfnin fór fram í höfuðstöðvum Marel, sem verið hefur bakhjarl keppninnar frá upphafi. Tólf hugmyndir af þeim 1.872 sem bárust frá 46 grunnskólum víða um land voru verðlaunaðar í ár.

„Hugmyndasmiðir Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda hjálpa okkur að sjá lífið í nýju ljósi,“ sagði forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson verndari keppninnar, í hátíðarávarpi sínu en hann afhenti sigurhugmyndunum tólf verðlaun.

Mennta- og menningarmálaráðherra Svandís Svavarsdóttir, flutti einnig ávarp og afhenti viðurkenningarskjöl til þátttakenda og grunnskóla. Þá kynntu þátttakendur sjálfir hugmyndir sínar fyrir gestum.

Tilgangur keppninnar er að efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og gera börnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og
hvernig þroska megi hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir. Keppnin er haldin á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og NKG verkefnalausnir sjá um framkvæmd og rekstur hennar. Aðalbakhjarlar keppninnar eru Marel hf., Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands.

Hofsstaðaskóli með flestar hugmyndir

Farandbikarinn fyrir hlutfallslega flestar hugmyndir í keppninni hlaut Hofsstaðaskóli í Garðabæ. Var þetta þriðja árið í röð sem Hofsstaðaskóli hlýtur bikarinn og fær hann því til eignar. Brúarásskóli á Egilsstöðum varð í öðru sæti og Brúarskóli í Reykjavík í þriðja.

Verðlaunahafar í ár

 Gullverðlaun

Kristín Hekla Örvarsdóttir, Hofsstaðaskóla (Öryggisúr)

Stefanía Malen Halldórsdóttir, Grunnskólanum austan vatna (Stigastöngin)

Dagný Rósa Vignisdóttir, Álftanesskóla (Tannburstaglas)

Karen Eir Einarsdóttir, Vesturbæjarskóla (Fjölnota stóll)

Silfurverðlaun

Gunnar Ásgrímsson, Árskóla (Jólaseríuhjálpari)

Lára Vilhelmsdóttir, Árskóla (Ljóskústur)

Hjördís Lilja Róbertsdóttir, Vogaskóla (Talklukka)

Sunneva Sól Árnadóttir, Flúðaskóla (Púslbretti)

Bronsverðlaun

Aníta Birna Berndsen, Ölduselsskóla (Ævintýralampi)

Sigríður Tinna Sveinbjörnsdóttir, Egilsstaðaskóla (Sjálfskipt kökuform)

Birgir Guðlaugsson, Hofsstaðaskóla (Ljóshanski)

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Varmahlíðarskóla (Gaddasvampur)

Verðlaunin í ár voru :

50.000 kr. fyrir gull, 30.000 kr. fyrir silfur og 20.000 kr fyrir brons,
í boði Samtaka iðnaðarins

Gjafabréf í Fablab smiðju Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Gjafabréf í Háskóla unga fólksins í boði Háskóla Íslands

Guðrúnarbikarinn

Anna Hulda Ólafsdóttir afhenti bikarinn til minningar um móður sína Guðrúnu Þórsdóttir. Guðrúnarbikarinn hlaut Júlía Kristín Kristinsson úr Vogaskóla í Reykjavík. Hugmynd hennar, „Kinda augnskýli“, er ætlað að vernda kindur og lömb fyrir ösku. Guðrúnarbikarinn er veittur hugmyndasmið sem er talinn hafa skarað framúr fyrir hugmyndaríki, dugnað, að vera fylgin sé, kurteisi og samviskusemi. Júlía Kristín hlaut Guðrúnarbikarinn til eignar með þá von að bikarnum fylgi sá kraftur og hvetjandi innblástur sem fylgdi Guðrúnu Þórsdóttur, sem var ein af upphafsaðilum keppninnar.