Fréttasafn



  • SME-wwek-2011

28. sep. 2011

Evrópska fyrirtækjavikan 2011 - fjöldi áhugaverðra viðburða í boði

Dagana 3. - 9. október 2011

Tvö undanfarin ár hefur ein vika á ári verið helguð nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum í Evrópu undir yfirskriftinni SME Week eða evrópska fyrirtækjavikan. Í ár er vikan tileinkuð frumkvöðlum sem eru að takast á við það ferli sem fylgir frumkvöðlastarfi öðru sinni og nú með nýja eða breytta hugmynd í farteskinu. Frumkvöðullinn Tóti Stefánsson er talsmaður vikunnar í ár fyrir Íslands hönd með fyrirtækið sitt Mobilitus. Hann kemur til með að deila reynslu sinni í pallborðsumræðu í Brussel fimmtudaginn 6. október þar sem fjöldi reynslumikilla frumkvöðla koma saman gagngert til að deilda reynslu sinni. Tóti stofnaði fyrirtækið sitt að nýju árið 2007 eftir að hafa siglt í gjaldþrot 2006 þrátt fyrir að hafa náð góðri fótfestu á nokkrum mörkuðum. Brotthvarf lykilfjárfesta varð til þess að fyrirtækið varð gjaldþrota en Tóti og viðskiptafélagi hans létu ekki deigan síga og útveguðu sjálfir fjármagn og héldu áfram með þróun á on-line text-to-speech þjónustu fyrir fólk með lesblindu. 

Staða og starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi
Nýsköpunarmiðstöð Íslands, RANNÍS, Íslandsstofa og Samtök iðnaðarins halda fjölbreytta viðburði á tímabilinu í samvinnu við fleiri öfluga aðila í stuðningsumhverfi frumkvöðla sem nær hámarki með sameiginlegu Tækni- og hugverkaþingi föstudaginn 7. október. Á þinginu verður fjallað um stöðu og starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi og hvernig stjórnvöld og atvinnulífið geta unnið saman að því að koma nauðsynlegum umbótum í framkvæmd.

Atburðir í boði í evrópsku fyrirtækjavikunni:

  • Helgin 30. sept - 2. okt: Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Suðurnesjum. Helgin er hugsuð sem vettvangur fyrir þá sem langar að koma eigin hugmynd í framkvæmd eða eiga þátt í uppbyggingu hugmynda annarra. Helgin snýst um að virkja fólk til athafna og er markmiðið með helginni að fólk byrji að vinna að frumgerð á ákveðinni vöru eða þjónustu. Hér er um að ræða samstarfsverkefni Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs, Landsbankans og sveitarfélaga landsins auk fleiri aðila. Skráning fer fram á www.anh.is
  • Mánudagurinn 3. október: Formleg opnun á upplýsingagátt sem hugsuð er sem leiðarvísir um þjónustuframboð iðnaðarráðneytis og undirstofnana þess þ.e. Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Byggðastofnunar, Ferðamálastofu og Orkustofnunar. Meginhlutverk þessara stofnana er að skapa kjöraðstæður fyrir öflugt og sterkt atvinnulíf og á þessi nýja síða að auðvelda leit að þjónustu og upplýsingum þessarra stofnana
  • Þriðjudagurinn 4. október: EUROGIA + kynningarfundur og verkefnastefna. Kynningarfundur á EUROGIA+ fimm ára EUREKA klasaáætlun sem miðar að tækniforystu fyrir samkeppnishæfan orkuiðnað í Evrópu. Áætlunin tekur til orkuiðnaðar á breiðum grundvelli og hefur nýlega verið útvíkkuð til endurnýjanlegrar orku og orkutækni á nýjum sviðum. Skráning fer fram á hér
  • Miðviku- og fimmtudagurinn 5.- 6. október: UppLifðu - samspil ferðaþjónustu og skapandi greina. Tveggja daga ferðamálaþing sem haldið verður á Ísafirði þar sem rík áhersla er lögð á samspil ferðaþjónustu og skapandi greina. Iðnaðarráðuneyti og Ferðamálastofa í samvinnu við Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Hönnunarmiðstöð, Arkitektafélag Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Byggðasafn Vestfjarða standa að þinginu. Skráning fer fram á www.vesturferdir.is
  • Föstudagurinn 7. október: Tækni- og hugverkaþing; Nýsköpun - uppspretta verðmæta. Á þinginu verður fjallað um stöðu og starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi og hvernig stjórnvöld og atvinnulífið geta unnið saman að því að koma nauðsynlegum umbótum í framkvæmd. Þingið er samstarf Samtaka iðnaðarins, Hátækni- og sprotavettvangs, þingflokka stjórnmálaflokka, ráðuneyta iðnaðar, utanríkis, mennta- og fjármála, háskóla og aðila stoðkerfis og atvinnulífs. Sjá nánar

Markmið fyrirtækjavikunnar er að veita heildaryfirsýn og skapa umræðu um stuðningskerfi nýsköpunar fyrir fyrirtæki og frumkvöðla á Íslandi. Allir áhugasamir eru hvattir til að sækja þá viðburði sem í boði eru með því að skrá sig á viðeigandi síður sem gefnar eru upp hér fyrir ofan.