Fréttasafn  • Alcoa_starfsmenn_kerskala2_nov08_HreinnM

21. okt. 2011

Fyndnir milljarðar frá útlöndum

Á dögunum kom í ljós að alþjóðafyrirtækið Alcoa hefur gefist upp á að reyna að reisa verksmiðju á Bakka við Húsavík. Undirbúningur verkefnisins hefur staðið í meira en fimm ár og kostað félagið á annan milljarð króna í beinan útlagðan kostnað, auk þúsunda vinnustunda starfsfólks félagsins við verkefnið víða um heim. Þar að auki hafa íslensk orku- og sveitarfélög varið hundruðum milljóna til málsins. Þegar niðurstaðan var fengin fögnuðu fulltrúar íslenskra stjórnvalda beint og óbeint. Sérstaklega tóku ráðamenn fram að Alcoa hefði hvort sem er ekki verið nein alvara með málinu.

Þessi yfirlýsing sýnir í hnotskurn vanda íslensks hagkerfis. Fjárfesting er hérlendis minni en áður í lýðveldissögunni, einmitt þegar kjörlendi hefur verið til að auka umsvif eða koma nýrri starfsemi á fót. Nú er aðeins fjárfest fyrir rúman helming þess sem verið hefur að meðaltali síðustu sjö áratugi. Atvinnuleysi hefur enda verið í hæstu hæðum undanfarin ár. Erlendir fjárfestar eiga í æ ríkari mæli að venjast því að vera atyrtir af íslenskum stjórnvöldum, hugi þeir að verkefnum á Íslandi. Og ekki tekur mikið skárra við, ef ekki verður af starfseminni. Þá mega þessir aðilar sitja undir að hafa aldrei meint neitt með þessu. En finnst stjórnvöldum virkilega líklegt að alþjóðleg fyrirtæki, jafnvel skráð á almennan hlutabréfamarkað, séu að verja milljörðum til undirbúnings verkefna á Íslandi, sem ekkert á svo að gera með? Eða skyldi tilgangur svona köpuryrða vera að breiða yfir raunverulegar ástæður þess að af verkefnunum verður ekki. Eitt er ljóst; enginn hlær.