Fréttasafn



  • Oxymap

24. okt. 2011

Íslenskur súrefnismælir í notkun víða um heim

Oxymap, nýsköpunarfyrirtæki á heilbrigðissviði, afgreiddi í mánuðinum tvo súrefnismæla til erlendra kaupenda. Annað tækið fór til Tékklands og hitt til Ástralíu. Verðmæti sölusamninganna er samtals um 19 milljónir íslenskra króna.

Aðdragandann að sölunum má rekja allt aftur til maí 2010 þegar fyrirtækið kynnti tækin í fyrsta sinn á alþjóðlegri sýningu fyrir augnlækna og augnrannsóknir (ARVO). 

Súrefnismælirinn er festur ofan á Topcon augnbotnamyndavél. Tækið er samansett af hugbúnaði, tveimur digital myndavélum og linsum og mælir súrefnismettun í æðum í augnbotni og æðavídd. 

Með notkun tækisins vænta menn þess að geta greint algenga sjúkdóma eins og gláku, hrörnun í augnbotni og sykursýki fyrr en áður og brugðist við á réttan hátt.

Hugbúnaðurinn er íslensk framleiðsla og aðalverðmæti vörunnar.

Tækið kostar um 8 milljónir og búið er að selja og leigja 12 tæki um allan heim. Á Íslandi, Danmörku, USA, Belgíu og Bretlandi. Í þessum mánuði verður sett upp tæki í Tékklandi og í byrjun næsta mánaðar verður svo sett upp tæki í Ástralíu. 

Súrefnismælirinn byggir á rannsóknum Einars Stefánssonar prófessors í augnlækningum og fleiri í yfir 20 ár.

Fyrirtækið Oxymap er í eigu frumkvöðla, fjárfesta og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Að því standa bæði Íslendingar og Bandaríkjamenn.