Fréttasafn



  • Vinnuvélar

25. okt. 2011

SI saka Lýsingu um undanbrögð

Lögmaður Lýsingar lýsti því yfir í tölvupósti til skiptastjóra Kraftvélaleigunnar að fyrirtækið myndi una dómi Hæstaréttar í máli sem féll á föstudag en fyrirtækið ætlar samt í mál við aðra viðsemjendur sína með fjármögnunarsamninga. Þetta kemur fram í frétt á visir.is. Samtök iðnaðarins segja það hrein undanbrögð hjá Lýsingu.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu á föstudag í máli Íslandsbanka gegn þrotabúi Kraftvélaleigunnar að fjármögnunarleigusamningur sem Kraftvélaleigan gerði við Glitni væri í raun gengistryggður lánssamningur sem væri ólögmætur.

Fjármögnunarfyrirtæki með slíka samninga þurfa því að endurreikna lánin með tilliti til dómsins.
Samkvæmt heimildum fréttastofu sendi lögmaður Lýsingar, skiptastjóra þrotabús Kraftvélaleigunnar bréf áður en málið var tekið fyrir þar sem því var lýst yfir að Lýsing myndi una dómnum þar sem fyrirtækið væri með sambærilega samninga við Kraftvélaleiguna og Íslandsbanki. Eftir að dómurinn féll lýsti Lýsing því hins vegar yfir að fyrirtækið myndi láta reyna sjálfstætt á kröfur sínar á hendur öðrum viðsemjendum fyrir dómstólum. Með öðrum orðum, Lýsing lítur ekki svo á að dómur Hæstaréttar, sem féll á föstudag, sé bindandi fordæmi gagnvart viðsemjendum fyrirtækisins.
Samtök iðnaðarins hafa lýst yfir mikilli óánægju með þetta en á annað hundrað félagsmenn samtakanna eru með samninga hjá Lýsingu sem þarf að endurreikna vegna dómsins. Þær fjárhæðir sem eru undir hlaupa á milljörðum króna.

Sigurður B. Halldórsson, lögmaður SI, sagði í samtali við fréttastofu að dómur Hæstaréttar hafi tekið til tuga samninga við Íslandsbanka og einnig tuga samninga sem Kraftvélaleigan gerði við Lýsingu. Sigurður sagði að Samtök iðnaðarins litu svo á að dómur Hæstaréttar hefði fullt fordæmisgildi fyrir samninga við Lýsingu. „Við undrumst að leyfisskyld fyrirtæki á fjármálamarkaði skuli reyna að beita svona undanbrögðum," segir Sigurður.
Samtök iðnaðarins hafa óskað sérstaklega eftir því á grundvelli 80. gr. gjaldþrotalaga að fá bréf lögmanns Lýsingar afhent þar sem Samtökin telja sig eiga lögvarða hagsmuna að gæta.   

Sjá frétt á visir.is