Eyjablikk og Litamálun bætast í hóp vottaðra fyrirtækja
Eyjablikk ehf. og Litamálun eru komin í hóp þeirra fyrirtækja sem fengið hafa staðfestingu á að þau fullnægi kröfum D-vottunar í áfangaskiptri gæðavottun SI.
Eyjablikk ehf. var stofnað árið 1997 af Ísloft blikk- og stálsmiðju og hjónunum Stefáni Þ. Lúðvíkssyni og Andreu Elínu Atladóttur en hefur alfarið verið í eigu þeirra frá árslokum 2009.
Fyrirtækið er í 400 m2 eigin húsnæði að Flötum 27 í Vestmannaeyjum og er allur aðbúnaður fyrir starfsmenn afar góður. Eyjablikk er alhliða blikk- og stálsmiðja sem þjónustar sjávarútvegsfyrirtæki, verktaka og einstaklinga. Verkefni eru fjölbreytt og má þar nefna loftræstikerfi, einangrun og klæðningar á hita og frystilögnum, flasningar, ryðfrí smíði, álsmíði, lagning koparþaka, smíði á handriðum, færiböndum og körum fyrir sjávarútveginn.
Bjarni Þór Gústafsson löggiltur málarameistari er eigandi Litamálunar ehf. Bjarni hefur starfað við málun í meira en 14 ár og býr því yfir víðtækri reynslu af öllu sem viðkemur málun og málningarvinnu. Litamálun er málningarþjónusta sem tekur að sér alla almenna málningarvinnu og sérverkefni í stórum og smáum byggingum, utanhúss og innan, hvort heldur er fyrir fyrirtæki eða einstaklinga. Litamálun veitir alla helstu ráðgjöf við litaval og samsetningar.
Nánari upplýsingar um áfangaskipta gæðavottun er að finna á www.gsi.is