Fréttasafn



  • Boxid_Logo

4. nóv. 2011

BOXIÐ - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna haldin á morgun

Næstkomandi laugardag fer BOXIÐ - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, fram í Háskólanum í Reykjavík en markmið keppninnar er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði.

Fjórtán framhaldsskólar víðsvegar af landinu sendu lið í undankeppni BOXINS en þau átta lið sem komust áfram og munu leiða saman hesta sína laugardaginn 5. nóvember eru frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum, Fjölbrautarskólanum í Garðabæ, Menntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum í Hamrahlíð, Tækniskólanum, Menntaskólanum í Reykjavík, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Verslunarskóla Íslands. 

Keppnin felst í þrautabraut með sex stöðvum og fara liðin, sem hvert er skipað fimm einstaklingum, á milli brauta og leysa ólíkar þrautir á hverjum stað. Að lokum keppa tvö stigahæstu liðin til úrslita í lokaþrautinni. Þrautirnar sjálfar reyna bæði á hugvit og verklag en þær eru útbúnar af fyrirtækjum úr ólíkum greinum iðnaðarins í samstarfi við fræðimenn Háskólans í Reykjavík.

Fyrirtækin sem komu að gerð þrautanna eru Betware, Ístak, Marel, Mentor, Promens, Ölgerðin, og Össur.  Stuðningsaðili framkvæmdakeppninnar er Margmiðlunarskólinn en nemendur hans munu gera BOXINU myndræn skil. 

BOXIÐ er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Háskólans í Reykjavík og Sambands íslenskra framhaldsskólanema og er þetta í fyrsta sinn sem keppnin er haldin.

BOXIÐ hefst kl. 9.00 og stendur til 17.00 laugardaginn 5. nóvember og eru allir hvattir til að koma í glæsileg húsakynni Háskólans í Reykjavík og fylgjast með hvernig framhaldsskólanemum gengur að hugsa út fyrir boxið.